Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Maraþontónleikar á laugardaginn á sal Holtaskóla
Föstudagur 16. mars 2012 kl. 08:21

Maraþontónleikar á laugardaginn á sal Holtaskóla

Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, D-sveit, heldur maraþontónleika á sal Holtaskóla laugardaginn 17. mars frá kl.14-19. Maraþontónleikarnir eru haldnir vegna væntanlegrar tónleikaferðar sveitarinnar til Boston og nágrennis, dagana 31. mars til 8. apríl nk. Alls er það 43 manna hópur sem fer, þar af telur lúðrasveitin 40 manns. Stjórnandi er Karen J. Sturlaugsson, en hún er ættuð frá Boston, sem er ein af mestu menningarborgum Bandaríkjanna.

Þetta er fjórða tónleikaferð Lúðrasveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar til útlanda og í ferðinni mun sveitin halda 5 tónleika í þremur fylkjum Bandaríkjanna, þ.e. Massachusetts, Rhode Island og Maine. Auk þess mun lúðrasveitin halda nokkra skólatónleika og spila á körfuboltaleik Harlem Globetrotter´s.

Maraþontónleikarnir hafa tvenns konar tilgang. Annars vegar eru þeir mikilvæg æfing fyrir lúðrasveitina, því þarna gefst tækifæri til að spila alla þá gríðarlega miklu efnisskrá sem sveitin hefur á valdi sínu, en stór hluti hennar verður fluttur á tónleikum í ferðinni. Hins vegar eru tónleikarnir mikilvægur liður í fjáröflun lúðrasveitarinnar.

Á efnisskrá lúðrasveitarinnar kennir ýmissa grasa, m.a. Á Sprengisandi og Brennið þið vitar, lög eftir Stevie Wonder, Coldplay og Michael Jackson og ekki síst tónlist úr kvikmyndunum Pirates of the Caribbean og Star Wars. Einnig verða einleiksatriði, lagið Flight of the Bumblebee á sýlófón, hið sprellfjöruga tamborínulag, Give My Regards to Broadway, og svo fá básúnurnar að láta ljós sitt skína í laginu Lassus Trombone.

Kaffihús verður starfrækt á tónleikunum milli kl.15 og 17 og verða veitingar af kaffihlaðborði til sölu á vægu verði. Það er því upplagt fyrir Suðurnesjamenn og aðra áhugasama, að gera sér dagamun og koma á flotta lúðrasveitartónleika í Holtaskóla á laugardaginn, gæða sér á ilmandi kaffi og nýbökuðu meðlæti og leggja þessu góða málefni lið.

Lúðrasveitin hefur ævinlega verið landi og þjóð til mikils sóma hvar sem hún hefur komið, bæði innanlands sem utan og hefur fyrir löngu skipað sér í fremstu röð íslenskra skólalúðrasveita. Lúðrasveitin flutti nýverið verkið Accordo eftir ítalska tónskáldið Luciano Berio ásamt þremur öðrum skólalúðrasveitum. Flutningur verksins, sem var frumflutningur hérlendis, var liður í Tectonics tónlistarhátíðinni sem Sinfóníuhljómsveit Íslands stóð að fyrir skömmu.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024