Már „Alive“ í Hljómahöll 13. mars
Már Gunnarsson heldur Stór-Stórtónleika „Alive“ ásamt færustu hljóðfæraleikurum Póllands í Stapa 13. mars nk. Einn virtasti „producer“ þar í landi, Hadrian Tabecki, snýr aftur til Íslands ásamt átta frábærum tónlistarmönnum sérstaklega fyrir þetta tilefni.
Margt hefur gerst hjá þessum unga tónlistarmanni og sundkappa undanfarna mánuði. Má þar nefna stórtónleika á erlendri grundu og þátttaka á stórum sundmótum erlendis með einstökum árangri!
Már hefur áunnið sér gríðarlega gott orð fyrir tónlist sína, íþróttaiðkun en það sem meira skiptir máli fyrir einlæga og fallega framkomu.
„Már er svo heppinn að eiga sem systur hina undurfögru og geislandi söngkonu, hana Ísold, og verður hún honum til halds og trausts á sviðinu. Gestasöngkona í ár er hin sjarmerandi Sigríður Thorlacius en hver þekkir ekki slagarann líttu sérhvert sólarlag og verður það að sjálfsögðu tekið fyrir,“ segir í tilkynningu frá Hljómahöll.
Almennt verður tónlistarstíllinn mjög fjölbreyttur og vonandi eitthvað fyrir alla t.d rokk, popp, country, latino, rapp, dægurlagatónlist og instrumental-músík.
Húsið og barinn opnar 13. mars á slaginu 18:30 en sýningin hefst kl 19:30 og stendur yfir í tæpar 2 klst með 15 mínútna hléi. Miðaverð 3900 kr.