Már og Iva mættu með fallega sumargjöf til landsmanna
„Kæru landsmenn nær og fjær, nú fer að hlýna í veðri og tannhjól samfélagsins fara að snúast á ný. Þetta markar ákveðin tímamót. Ég og elskuleg vinkona mín, Iva, viljum færa samfélaginu þessa tímamótagjöf; yndislegt lag sem allir ættu að þekkja í nýjum búning. Útsetning er eftir mig og minn kæra Þórir Baldursson,“ skrifar Már Gunnarsson á fésbókina síðdegis um leið og hann deilir myndbandi með laginu Barn, sem er ein af perlum Ragnars Bjarnasonar.
Það er óhætt að segja að lagið hafi fengið fljúgandi start hjá þeim Má og Ivu, því þegar þetta er skrifað kl. 21, þá hafa yfir 13.000 spilað lagið og horft á myndbandið og yfir 220 deilt laginu áfram.
Lagið sjálft var frumflutt á Bylgjunni kl. 13 í dag en myndbandið var gert opinbert kl. 17. Það var tekið upp á Garðskaga og í Sandvík. Hilmar Bragi Bárðarson annaðist kvikmyndagerð en Bojan Radojcic var listrænn stjórnandi
„Við vonum að ykkur líki vel. Takk allir sem komu að verkefninu,“ segir Már að lokum.