Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Már & Max
Laugardagur 25. september 2021 kl. 08:09

Már & Max

Már Gunnarsson er kominn heim til Keflavíkur eftir langt og strangt ferðalag á Ólympíumót fatlaðra sem fram fór í Tókýó í Japan. Þar var Már í þrjár vikur og náði góðum árangri þar sem hann synti t.a.m. til úrslita í tveimur greinum. Þegar Már kom svo heim tók á móti honum nýr félagi, leiðsöguhundurinn Max, sem mun fylgja Má hvert fótmál næstu árin. Már og Max eru núna í samþjálfun þar sem þeir fara um bæinn ásamt hundaþjálfara. Max lærir að þekkja umhverfi Más og Már lærir að þekkja inn á Max. Það er annars að frétta af Má að hann er núna í fríi frá sundinu og er byrjaður í tónlistarskóla í Reykjavík, þar sem hann leggur áherslu á að bæta enn færni sína á tónlistarsviðinu, enda margt framundan. Tónleikahald í lok október og svo er verið að leggja grunn að lagi til þátttöku í forkeppni Eurovision árið 2022.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þú stefndir lengi að því að komast á Ólympíumót og draumurinn rættist. Hvað situr eftir þegar þú ert kominn heim eftir þessa ferð?

„Ég er ennþá að átta mig á að þessa sé búið. Þetta var búið að vera í kortunum í rosalega langan tíma. Þetta mót átti að vera í fyrra en það varð bið í eitt ár í viðbót. Það er búið að ganga á ýmsu undanfarin þrjú ár. Það sem situr eftir er að hafa klárað þetta og ég er stoltur af því. Það var ekkert víst að mér hefði tekist þetta og það var oftar en einu sinni sem ég næstum gugnaði á þessu en er feginn að það gerðist ekki.“

Stóra markmiðið var að komast út og var þá ekki næsta markmið að ná einhverjum árangri?

„Algjörlega og ég horfði á það að reyna að ná verðlaunum í 100 metra baksundi, sem ég átti gríðarlega góða möguleika á. Ég var eina sekúndu frá gullverðlaunum í sundinu og endaði fimmti. Þetta var algjört grísadæmi og mjög jöfn keppni – en ég kem samt heim með Íslandsmet og það er ekki sjálfgefið að fara á stóra sviðið og bæta sig, sem ég gerði, þannig að ég get ekki kvartað.“

Var samkeppnin harðari en þú áttir von á?

„Þetta sport er alltaf að stækka og ég vissi alveg að þetta yrði tæpt. Það var alveg borðleggjandi.“

Án efa skemmtilegasta keppnisferðalagið

Már dvaldi í Japan í þrjár vikur en ferðalagið þangað er einnig langt. „Þú ferð ekki til Tókýó í helgarferð, því get ég lofað þér,“ segir Már og hlær.

Hvernig var þetta ferðalag og þátttakan í Ólympíumótinu? Hvernig varstu að upplifa þetta?

„Þetta var langt ferðalag en gott veður allan tímann. Maturinn var ekkert sérstakur. Covid setur svaka strik í reikninginn. Það voru óteljandi reglur um hvað mátti og mátti ekki gera. Maður var hitamældur oft á dag og Covid-test tekið á hverjum degi. Það voru grímur út um allt og þetta tók á. Mér leiddist samt aldrei á þessum þremur vikum og þetta er án efa skemmtilegasta keppnisferð sem ég hef farið í.“

Var margt sem kom þér á óvart?

„Já. Japanir eru sniðugir að mörgu leyti. Þeir eru með fullt af litum og sniðugum lausnum á hinu og þessu. Ég var mikið að sýna á mínum samfélagsmiðlum hvað var að gerast þarna og hvaða undratæki maður rakst á. Til dæmis augnspúlarinn eða sjálfspúlandi klósettin, sjálfsalarnir þar sem þurfti ekki að borga og fullt af skemmtilegum hlutum þarna.“

Már við einn af fjölmörgum sjálfsölum í Ólympíuþorpinu þar sem hann sótti sér drykk.

Hvernig var spennustigið? Það er eitt að komast á leikana og svo er löngun til þess að ná góðum árangri. Hvernig var andlega hliðin?

„Ég verð að segja að minn helsti galli sem íþróttamaður er að ég verð alveg rosalega stressaður að synda. Ég verð miklu stressaðri að synda 100 metra baksund en að spila á tónleikum fyrir framan 16.000 manns og 40 milljónir í sjónvarpi. Á Ólympíumótinu var ég mjög góður varðandi spennustigið. Ég var búinn að vinna í því á undan að verða ekki stressaður og ég varð bara mjög lítið stressaður á leikunum.“

Már segir að það hafi líka skipt máli að hann var með allt sitt besta fólk með sér á leikunum. Faðir hans, Gunnar Már Másson, var í hópi aðstoðarmanna og þá kom þjálfarinn hans, Steindór Gunnarsson, á leikana. „Maður finnur mun á því að hafa yfirþjálfarann með eða að vera í landsliðsverkefnum þar sem hann er ekki með. Það er svo margt sem við erum að skoða í upphitun og á æfingum.“

Með allt sitt besta fólk á staðnum

Már segir að það hafi líka skipt máli að hann var með allt sitt besta fólk með sér á leikunum. Faðir hans, Gunnar Már Másson, var í hópi aðstoðarmanna og þá kom þjálfarinn hans, Steindór Gunnarsson, á leikana. „Maður finnur mun á því að hafa yfirþjálfarann með eða að vera í landsliðsverkefnum þar sem hann er ekki með. Það er svo margt sem við erum að skoða í upphitun og á æfingum.“

Þegar Már er spurður út í mataræði á leikunum og hvort það hafi verið áskorun, því hann lýsti því fyrr í spjallinu að maturinn hafi ekki verið neitt sérstakur, þá segir hann:

„Í Ólympíuþorpinu voru matarhallir með tíu eða tólf veitingastöðum þar sem hægt var að fara á hvaða tíma sólarhringsins sem er og fengið eins mikið að borða og þig langaði til. Gallinn var að þetta var ekki vel eldað og mötuneytisbragur á þessu. Maturinn var búinn að standa lengi, var þurr og bragðlítill. Það bjargaði þó málum að staðirnir voru margir og ef þú fékkst eitthvað sem var vont, þá gastu farið annað og fundið eitthvað skárra. Ég var feginn þegar ég kom út á flugvöll og gat fengið góða nautasteik með piparsósu,“ segir Már og hlær þegar hann bætir því við að hann elski nautasteik með piparsósu.

Allir vegir færir

Nú þegar Már er kominn heim eftir Ólympíumótið er hann spurður að því hver staða hans sé sem tónlistarmanns og íþróttamanns. Er Már að fara að skila sundskýlunni og tónlistin að taka yfir?

„Núna er ég í smá fríi frá sundinu og þarf að melta þetta. Ég er byrjaður í tónlistarskóla í Reykjavík og er að setja áherslu á tónlistina og svo mun bara koma í ljós hvað ég geri varðandi sportið. Ég veit að mér eru allir vegir færir bæði í tónlist og sundi. Það er stutt í Ólympíumótið í París 2024 og þá er bara spurning hvort ég sé tilbúinn í annan svona pakka eins og í Tókýó. Ég bý að mörgu góðu, ég er með frábært bakland, gæti ekki hugsað mér betri styrktaraðila og er vel studdur af fyrirtækjunum í kringum mig. Það er mikil vinna að vera afreksíþróttamaður og mun meiri en fólk gerir sér grein fyrir. Ef ég geri þetta, að taka þátt í mótinu 2024, þá geri ég það af fullum huga. Svo kemur til greina líka að einbeita sér bara að baksundinu og gera það vel.“

En hvað er framundan í tónlistinni?

„Ég verð með tónleika í Ytri-Njarðvíkurkirkju í lok október og við erum að skipuleggja þá þessa dagana. Ég er að reyna að koma mér inn í Eurovision, ég er að æfa mig meira á píanó en ég hef nokkurn tímann gert áður og er að reyna að þróa mig áfram og lengra sem tónlistarmaður, þannig að ég myndi segja að það er margt skemmtilegt að gerast.“

Leiðsöguhundurinn Max

Nú ertu kominn með nýjan gest á heimilið. Segðu okkur frá honum.

„Max er sænskur leiðsöguhundur sem er kominn til að fara með mér út um allt. Við erum í samþjálfun núna og erum að læra inn á hvorn annan. Hann er að kynnast mér og ég honum. Þetta er bara æðislegt.“

Már og Max eru þessa dagana í samþjálfun þar sem Max lærir helstu gönguleiðir Más. Hér eru þeir á strandleiðinni í Reykjanesbæ sem er skemmtileg gönguleið með sjávarsíðunni.

Hvaða breyting er þetta fyrir þig?

„Leiðsöguhundur gegnir því hlutverki að fara með eiganda sínum örugglega á milli staða. Láta vita af öllum hlutum eins og staurum og fara framhjá hindrunum. Þeir þekkja gönguleiðir og helstu leiðir sem ég er að fara að heiman. Max mun hjálpa mér að gera hluti sem ég gerði ekki áður. Óvæntir hlutir eru verstir fyrir mig, bílar sem eru rangt staðsettir, skurðir og framkvæmdasvæði. Max er góður í því að takast á við hið óvænta. Hann er duglegur að leiða mig áfram og spyr hvort ég vilji fara til vinstri eða hægri og ég gef honum bendingar um það. Max er geggjaður. Hann finnur tröppur og innganga og er mjög hjálplegur.“

Már segir að hvíti stafurinn sé ekki nógu áberandi í dag, þannig að fólk veiti honum athygli. Fólk sem er úti á göngu sé niðursokkið í símann og veiti því lítið athygli hvort hann sé á ferðinni með hvíta stafinn. Þar komi Max sterkur inn og komi í veg fyrir árekstur.

Már sótti um leiðsöguhund fyrir einu og hálfu ári síðan. Max er er af Labrador-kyni og er fæddur í Svíþjóð fyrir tveimur árum. Þar hefur hann líka verið í þjálfun sem leiðsöguhundur allt frá því hann kom í heiminn. Það má segja að Max sé sænskur og Már gefur honum skipanir á sænsku.

„Ég get alveg kennt honum skipanirnar á íslensku en hef hugsað mér að gefa honum skipanir áfram á sænsku,“ segir Már sem þó spjallar við Max á íslensku. Hann segir að fyrst og fremst sé Max hjálpartæki fyrir hann. Max sé frábær karakter og skemmtilegur hundur og góður vinur.