Mannslíkaminn er mesta tækniundrið
Hann er búinn að uppgötva jóga og segir jógaiðkun geta hjálpað miklu fleirum ef börnum eru kenndar jógaæfingar strax frá barnsaldri. Jógavísindi eru þau vísindi sem eiga eftir að verða drifkraftur að næstu tæknibyltingu mannkynsins, segir hann, mannslíkaminn sé mesta tækniundrið á þessari plánetu. Töluvert meira undur en snjallsímar og tölvur geta nokkurn tímann orðið.
Mundi fór sínar eigin leiðir
„Þú sagðist ekki drekka kaffi en vildir vatn. Gjörðu svo vel, hér er vatn sem hefur fengið að jafna sig í bollanum áður en þú komst,“ segir Mundi um leið og við setjumst niður á heimili móður hans í Njarðvíkunum. Blaðakona hváir þegar við ræðum þetta með vatnið en man eftir að hafa heyrt þessa pælingu áður; um að vatn flæði á ógnarhraða eftir vatnsleiðslunni og fái þar í sig ákveðna spennu. Þess vegna sé gott að leyfa vatninu að standa, róa sig niður, áður en við drekkum það. Skemmtileg pæling.
Við komum okkur fyrir í notalegri stofunni og Þruma, hundurinn á heimilinu, er dugleg að kjassast utan í blaðakonu sem er bara skemmtilegt.
Mundi byrjar á byrjuninni en hann ólst upp í Keflavík og gekk þar í skóla.
„Mér leið ágætlega framan af í skóla en þegar ég kom á unglingsárin fór ég að missa áhugann á náminu, sá engan tilgang í því sem ég var að læra. Ætli það hafi ekki verið í áttunda bekk sem ég fann að ég vildi ekki láta setja mig í ramma. Ég vildi ekki láta aðra segja mér hvernig lífið væri, heldur langaði mig til að uppgötva það sjálfur. Þá byrjaði uppreisn í mér og ég fór aðrar leiðir til að uppgötva lífið. Ég byrjaði að fikta við áfengi. Næstu árin fóru í að djamma og djúsa með vinunum. Áfengi tók meir og meir pláss í lífi mínu. Ég lifði hratt en var ekkert að fikta við ólögleg eiturlyf en áfengið var nóg samt. Sjálfseyðingarhvötin var sterk á þessum árum og ég lifði nokkurn veginn út frá þeirri vissu að ég yrði ekki eldri en tvítugur. Svo þegar ég er að verða tvítugur fer ég að sjá að kannski lifi ég lengur en í tuttugu ár. Í kjölfarið átta mig ég því að ég þyrfti að breyta lifnaðarháttum mínum.“
Mundi með Hauki, pabba sínum, og Arnari bróður.
Hefur alltaf haft gaman af listmálun
Mundi fann sig ekki í að stunda íþróttir af neinni alvöru en hann hafði gaman af að teikna og mála myndir.
„Ég æfði körfubolta á mínum yngri árum en þegar æfingarnar fóru að verða alvarlegar missti ég áhugann. Bæði var það agaleysi af minni hálfu en einnig fannst mér keppnisandinn fráhrindandi. Ég lék mér í ýmis konar boltaleikjum með vinum mínum en forðaðist á þessum tíma að leika mér með einstaklingum sem tóku leikinn of alvarlega. Ég stundaði reyndar líkamsrækt á sínum tíma og box en ekkert sem ég entist í lengi. Ef ég var ekki með vinum mínum þá eyddi ég tímanum í tölvuleiki, kvikmyndir eða að teikna og mála.“
„Þó að þetta hafi verið óhollt líferni þá minnist ég þess alveg með ákveðinni hlýju. Það var margt mjög heimskulegt sem maður tók upp á á þessum tíma og sumt mjög mjög heimskulegt“
Tók U-beygju um tvítugt
Fyrstu árin í Fjölbrautaskóla Suðurnesja voru fálmkennd og ómarkviss fyrir Munda. Tímabil sem einkenndist fyrst og fremst af djammi með vinum sínum.
„Frá því að ég var átján ára til að verða tvítugur, held ég að ég hafi farið á fyllerí hverja helgi. Oft var fimmtudagurinn tekinn með. Þó að þetta hafi verið óhollt líferni þá minnist ég þess alveg með ákveðinni hlýju. Það var margt mjög heimskulegt sem maður tók upp á á þessum tíma og sumt mjög mjög heimskulegt – en aðallega voru þetta góðar stundir með vinum, fyrir utan þau atvik þar sem maður skemmti sér á kostnað annarra eða þegar maður olli öðrum skaða á einhvern hátt. Þarna um tvítugt tók ég ákveðna U-beygju, hætti að drekka áfengi og var meira einn. Þetta var erfiður tími. Ég vann við háþrýstiþvott á daginn og á kvöldin spilaði ég við dverg í netheimum. Ég fór líka að grúska í hinu og þessu. Fór að lesa heimspeki og las mér til í Biblíunni. Ég hef alltaf verið heillaður af trúarbrögðum og fundist einhver djúpur sannleikur í þeim sem ég hef reynt að nálgast. Seinna meir fór ég aftur í FS og útskrifaðist sem sjúkraliði með stúdentspróf 23ja ára gamall. Ég er mjög þakklátur að hafa tileinkað mér það starf. Þó svo að það sé ýmislegt annað sem mig hefur langað að gera í gegnum tíðina, þá hefur alltaf verið eitthvað í mér, sem sagði mér að þetta væri það sem ég þyrfti að gera. Það eina sem maður þarf í raun að gera til þess að standa sig vel í aðhlynningarstarfi er að þykja vænt um einstaklinginn sem þú sinnir. Eins lengi og maður finnur fyrir þessari væntumþykju þá kemur allt hitt af sjálfu sér. Ég finn hvað það hefur reynst mér vel að æfa þessa væntumþykju í starfinu og held að sú tilfinning sem ég hef ræktað í þessu starfi, hafi leiðbeint mér á marga vegu í rétta átt í gegnum tíðina. Svo eru það líka vinirnir sem ég hef eignast í gegnum þetta starf og sem ég hef fengið að fylgja síðustu æviárin sín, sem er eitthvað sem hefur reynst mér ómetanlegt.“
Vildi læra af lífinu sjálfu
Ásamt því að starfa sem sjúkraliði var Mundi í heimspeki og listfræðinámi í Háskóla Íslands. En eftir eitt og hálft ár sótti hann um starf úti á landi.
„Ég ákvað að fara í HÍ, lærði heimspeki og listfræði, ekki til að fá gráðu. Ég var að leita og hafði gaman af þessu námi í eitt og hálft ár en svo ákvað ég bara að læra sjálfstætt með því að grúska. Það var umrót í lífi mínu á þessum tíma og mig langaði að fara út á land, tengjast betur náttúrunni. Þá sótti ég um starf sem sjúkraliði á hjúkrunarheimilinu á Reykhólum og fékk starfið. Þar bjó ég í tvö ár á efri hæð hjúkrunarheimilisins. Þetta var frábær tími. Fólkið og náttúran. Ég kynntist fullt af góðu fólki á Reykhólum og leið virkilega vel. Reykhólar eru lítið, samheldið samfélag þar sem allir þekkja alla og fjölskyldan skiptir máli. Þarna voru bændur sem ég aðstoðaði í sauðburði og fleiru sem tilheyrir sveitastörfum. Ég kynntist einstöku fólki á Reykhólum. Það var gaman að kynnast sveitahliðinni á Íslandi og ég hafði mjög gott af því. Samfélagið á Reykhólum tók mér opnum örmum.“
Mundi (lengst til hægri) með móður sinni, bróður sínum og konu hans.
Puttalingar urðu örlagavaldar
Lífið sjálft hefur greinilega verið aðalnám Munda. Dvölin á Reykhólum var honum góð en aftur snéri hann heim til Keflavíkur og keypti sér íbúð og bíl.
„Dvölin á Reykhólum sýndi mér hvað fjölskylda skiptir miklu máli. Þannig að ég fór aftur í Keflavík til þess að rækta fjölskyldutengslin Ég fékk strax vinnu á Hlévangi sem sjúkraliði. Svo hófst nýr kafli í lífi mínu en það gerðist alveg óvart þegar ég tók puttalinga upp í bílinn minn. Við vorum að spjalla í leiðinni. Þeir ætluðu út á Reykjanes og ég fann að mig langaði með þeim en gerði ekkert í því. Mér fannst gott að hitta fólk af öðru þjóðerni og mig langaði að hitta fleiri. Ég vissi af heimasíðu sem ég skráði mig á. Heimasíðan heitir Couchsurfing.org en þar býður þú fólki að gista á sófanum hjá þér í staðinn fyrir að borga fyrir hótel eða airbnb. Á næstu níu mánuðum fékk ég 300 manns heim til mín. Fólk svaf út um alla íbúð og oft lánaði ég þeim bílinn minn. Það voru alltaf gestir heima hjá mér. Þetta var rosa gaman. Auðvitað var þetta ögrandi í upphafi fyrir mig en ég vildi ögra mér. Ég ákvað að treysta þessum gestum mínum og leyfði þeim að ganga um íbúðina eins og þau vildu. Þarna kynntist ég fullt af fólki sem sumir urðu vinir mínir áfram og einn þeirra bjó í Berlín. Þar sem mig hafði alltaf langað að prófa að búa í erlendri stórborg ákvað ég að finna mér sjálfboðaliðastarf í Berlín. Þar var ég að vinna á bar í nokkrar klukkustundir á dag og fékk að gista í herbergi í staðinn. Ég fór einnig á þýskunámskeið. Ég leitaði að vinnu sem sjúkraliði í Berlín og fékk starf við heimahjúkrun eftir nokkra mánuði, þar sem ég sinnti gömlum Austur-Þjóðverjum, sem var mjög áhugavert. Svo kynnist ég sjálfboðaliðastarfi með heimilislausum í borginni og vann einnig við það. Ég var tvö ár í Berlín og þó að mér hafi liðið mjög vel þar, þá var eitthvað í mér sem sagði að ég ætti ekki að vera þarna til lengri tíma. Þannig að ég flutti aftur heim. Það vantaði sjúkraliða á Hlévangi, ég sótti um þar og fékk starf.“
Að gera það sem þarf að gera
Það sem dregur Munda inn í hin og þessi ævintýri er að fylgja þeirri tilfinningu, að gera það sem þarf að gera.
„Ég var enn leitandi eftir þennan tíma í Berlín. Ég hafði heyrt af Vipassana hugleiðslu í Belgíu, að sitja í þögn í tíu daga og það heillaði mig strax. Mér fannst það mjög áhugavert og ákvað að fara þangað. Þetta var fáránlega erfitt. Sársauki og óþægindi voru mikil í líkamanum þegar maður sat í þögn og hafði ekkert til að dreifa huganum. Ég neyddist til að horfast í augu við þessa þjáningu. En óþægindi og þægindi eru eitthvað sem kemur og fer og eins lengi og maður er ekki að halda í þægindin eða að ýta burt óþægindum, þá verður hvorugt að þjáningu. Á þessum tíu dögum sá ég mjög skýrt að ég er eitthvað annað en líkami minn og hugsanir mínar. Þessi reynsla hafði mjög djúp áhrif á mig. Eftir þessa reynslu ákvað ég að fara þangað aftur sem sjálfboðaliði stuttu seinna. Ég fór þá með því hugarfari að ég ætlaði mér ekkert að fara þaðan aftur. Á setrinu var ég látinn sjá um eldhúsið sem var ótrúlega krefjandi en skemmtilegt. Þó að hugleiðsluæfingarnar sem eru í boði þarna séu mjög áhrifamiklar, þá fannst mér eitthvað angra mig við samtökin sjálf, sem fékk mig til að fara heim eftir fjögurra mánaða dvöl. Mér fannst samtökin snúast of mikið um sig sjálf og ekki nægilegt tillit væri tekið til umheimsins.“
Barmahlíð, þar sem Mundi bjó í tvö ár.
„Í jógasetrinu finnurðu bæði fjölskyldufólk og einstaklinga sem hafa ákveðið að helga sig alfarið þessu verkefni, að hækka vitundarstig mannkynsins“
Fór til Indlands sem sjálfboðaliði
Eftir fjóra mánuði sem sjálfboðaliði í Belgíu kom Mundi heim til Íslands. Hann fór þó fljótlega aftur sem sjálfboðaliði til Indlands eftir að hafa kynnt sér Isha samtökin sem Sadhguru stofnaði á Indlandi, í Bandaríkjunum og víða um heim.
„Þegar ég var kominn heim aftur fór ég að grúska en var ekkert sérstaklega að leita að einhverju ákveðnu. Svo datt ég niður á skemmtilegt viðtal með Sadhguru og Gordon Ramsey sem kveikti áhuga minn á að kynna mér betur Isha samtökin – en í þessu myndbandi sá ég hvernig Sadhguru tók Gordon Ramsey alveg eins og hann er. Ég skynjaði að Sadhguru kenndi sig ekki við allt þetta jóga sem hann er að kenna og það var í raun það sem ég var að leita að. Kennara sem lifir ekki í þægindaramma og er ekki að reyna koma mér fyrir í ramma. Eitt leiddi af öðru. Ég fór fyrst til Parísar og lærði eina af grunnæfingum í jóga sem Isha samtökin kenna þar. Eftir að hafa verið í París fór ég sem sjálfboðaliði á jógasetur Sadhguru á Suður-Indlandi. Þar var ég í sex mánuði eða eins lengi og leyfilegt er að dvelja í landinu. Jógasetrið er staðsett í fjallalaut, það er ofboðslega fallegt þarna í kring. Samhliða ýmis konar verkefnum sem manni var úthlutað, svo sem að gróðursetja plöntur og þjóna í kringum máltíðir, þá var ég fyrstu mánuðina bara að gera æfingarnar sem ég lærði í París ásamt æfingum sem kenndar eru á netinu. Svo fór ég að bæta við mig æfingum og þegar ég var búinn að læra allar æfingarnar iðkaði ég jóga hátt í átta klukkustundir á dag. Maturinn var mjög heilnæmur og góður, aðeins grænmetisfæði. Svefnaðstaðan fyrir sjálfboðaliðana var þannig, að við sváfum allir ofan í hver öðrum. Stundum vaknaði ég með hendina á næsta náunga framan í mér en ég svaf samt alltaf mjög vel, þar sem alltaf var nóg að gera yfir daginn og maður var þreyttur. Að koma til Indlands var frekar erfitt og mikið menningarsjokk. Gífurlegur mannfjöldi þarna. Persónulegt rými er nánast ekkert á Indlandi, ekki eins og við eigum að venjast hér á Íslandi. Ég stóð kannski í biðröð og þá var næsti maður fyrir aftan mig farinn að tromma á bakið á mér eins og ekkert væri sjálfsagðara. Þrátt fyrir að finnast á margan hátt erfitt að vera á Indlandi, fann ég fyrir miklum þroska þarna og stefni ég á að fara þangað aftur um leið og ég get. Þetta var mjög lærdómsríkur tími og margt sem ég upplifði, ýmsar krefjandi raunir. Eitt af verkefnum mínum á jógasetrinu var að ganga berfættur og ber að ofan upp á 2800 metra hátt fjall. Þar var ég nærri frosinn í hel. Svo fékk ég að upplifa það að betla og átti að taka á móti ölmusu frá 21 manneskju í miðborg Coimbator sem er stórborg í klukkutíma fjarlægð frá jógasetrinu. Það kom mér á óvart hversu frelsandi það var að betla. Í staðinn fyrir að upplifa einhverja skömm, þá fann ég í raun bara fyrir ákveðnu öryggi, eins og einhver ótti gufaði upp, sem ég vissi ekki af. Isha samtökin nálgast hlutina á svo fordómalausan og heildrænan hátt að ég er ekki í nokkrum vafa um að ég sé búinn að finna mér þau tól sem ég hef verið að leita að til þess að upplifa lífið til fullnustu. Þetta eru samtök sem einbeita sér að því að hækka vitundarstig mannkyns, með því fyrst og fremst að koma því til skila sem jógavísindin hafa fram að færa en einnig með ýmis konar mannúðarmálum og náttúruverndarstörfum. Þau taka tillit til þess að við erum öll misjöfn. Í jógasetrinu finnurðu bæði fjölskyldufólk og einstaklinga sem hafa ákveðið að helga sig alfarið þessu verkefni, að hækka vitundarstig mannkynsins. Ég er viss um að jógavísindin séu þau vísindi sem eiga eftir að verða drifkraftur að næstu tæknibyltingu mannkyns. Mannslíkaminn er mesta tækniundrið á þessari plánetu, töluvert meira en snjallsímar og tölvur geta nokkurn tímann orðið.“
Jógasetrið á Indlandi.
Jógaiðkun inn í alla grunnskóla
„Ég tók mig til þegar ég kom aftur heim til Íslands eftir Indlandsferðina og sendi öllum skólum landsins tölvupóst, hvatningu til að taka upp Upa Yoga fyrir nemendur. Þetta eru ókeypis jógaæfingar á Youtube sem Isha samtökin bjóða upp á. Það sem heillar mig við þessa tegund jógaiðkunar er að þú þarft ekki að hafa kennara yfir þér í hvert skipti sem þú gerir æfingarnar. Þú lærir þær og svo er það þitt að fullkomna æfingarnar með því að stunda þær. En í þessu tilfelli sá ég fyrir mér alla skóla landsins taka frá fyrsta hálftímann á morgnana og stunda jóga saman, kennarar og nemendur. Þetta eru jógastellingar sem voru uppgötvaðar til þess að efla manneskjur til hins ýtrasta. Þess vegna tel ég það mjög mikilvægt að þegar fólk fer að stunda jóga að það treysti því að æfingarnar séu byggðar upp með þetta næmi í huga. Annars er hætta á að fólk fari að byggja upp allskonar kvilla innra með sér, eins og á við um alla sjálfsrækt, ef ekki er rétt að farið. Ég persónulega tel mig ekki hafa það næmi sem til þarf til að kenna jóga en mögulega get ég einhvern tímann í framtíðinni kennt jóga í samræmi við þann sem ég tel að hafi þetta næmi sem til þarf.“
Við leyfum þessum hvatningarorðum Munda að hljóma í lokin. Jógaiðkun og jafnvel hugleiðslu inn í alla skóla. Krakkarnir gætu öðlast aukna sjálfsmeðvitund og það myndi hjálpa þeim að efla einbeitingu í námi, takast á við áskoranir lífsins, ójafnvægi og jafnvel skapbresti. Það þarf einnig að kenna þeim hvað heilnæmt mataræði skiptir miklu máli fyrir líkamsheilsu og hvernig þau geta haft orkuna sína í lagi út frá því sem þau borða. Jógafræðin geta skipt heilmiklu máli fyrir lýðheilsu almennings.