MANGÓ FLUTT NOKKRUM SKREFUM NEÐAR
Tískuverslunin Mangó í Keflavík flutti sl. föstudag frá Hafnargötu 34, nokkrum skrefum neðar í götunni eða í Stapfellshúsið þar sem bílabúðin var áður til húsa að Hafnargötu 32. „Það var þægilegt að flytja, bara nokkur skref“, sagði Guðrún Reynisdóttir, Rúna í Mangó, eigandi verslunarinnar en hún opnaði hana í desember fyrir fjórum árum síðan. Þegar húsnæðið að Hafnargötu 32 bauðst til kaups var hún fljót að slá til og komst þannig í eigið framtíðarhúsnæði sem er bæði stærra og betra og í skemmtilegum kjarna innan um aðra aðila. En hvernig er að reka tískuverslun sem sérhæfir sig í fatnaði fyrir kvenþjóðina? „Mikil læti“, sagði Rúna og hló, „þær vilja mikið úrval og ég hef reynt að vera með það. Ég hef verið í góðu samstarfi við saumastofuna Liljurnar hér í Keflavík sem hafa saumað mikið fyrir mig“.Rúna sagði að strax í byrjun hafi sér verið vel tekið en aðspurð um tískuna í dag sagði hún að það væru kjólar, pils og draktir en helsta breytingin væri í síddinni. Núna væri hún hálfsíð, í ermum, pilsum og kjólum.