Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Mamma númer tvö
Baldur Einarsson og Blær Hinriksson fara með aðalhlutverkið í myndinni og þykja fara á kostum. Hér er Kritstín Lea að fara yfir línur með strákunum.
Föstudagur 27. janúar 2017 kl. 09:12

Mamma númer tvö

Kristín Lea aðstoðaði leikstjóra við þjálfun ungu leikaranna í kvikmyndinni Hjartasteinn

Keflvíkingurinn Kristín Lea Sigríðardóttir spilar stórt hlutverk í kvikmyndinni Hjartasteini án þess þó að vera meðal leikara hennar. Hún hóf störf snemma í ferlinu, tók þátt í leikaravalinu og aðstoðaði leikstjóra við þjálfun allra ungu leikaranna, en unga leikaraliðið hefur sérstaklega verið lofað fyrir frábæra frammistöðu.

Kristín er menntuð leikkona og hefur leikið í stuttmyndum og auglýsingum auk þess sem hún lék eftirminnilegt hlutverk í Vonarstræti. Hún segist meira hafa fært sig bak við tjöldin þar sem leikaraval er orðið hennar sérgrein. „Ég veit ekki hvernig ég lenti í þessu. Ég er líklega bara mjög heppin að hafa þvælst inn í þennan heim,“ segir Kristín hógvær en hún hóf ferilinn fyrst sem aðstoðarkona Baltasars Kormáks í Djúpinu á sínum tíma. Vigfús maðurinn hennar er líka í „bransanum“ og spilar kvikmyndagerð því stóran sess í lífi þeirra hjóna. Kristín segist aðeins vera með annan fótinn í kvikmyndagerðinni að svo stöddu en annars starfar hún sem flugfreyja.

Á næstunni munu birtast á Netflix þættir um Geirfinnsmálið en þar sá Kristín um að velja leikara. „Ég get bara sagt að það verða þarna einhver andlit sem Suðurnesjafólk ætti að kannast við.“ Hún segist vera með annað spennandi verkefni í vinnslu sem ekki sé tímabært að tala um.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Flutti með fjölskylduna austur

Kristín var leikþjálfi ungu leikaranna í Hjartasteini og aðstoðaði leikstjóra við leiklistarkennslu krakkanna yfir níu mánaða tímabil. „Þar köfuðum við í leiklist og æfðum atriði úr myndinni,“ segir hún en tökur stóðu yfir á Borgarfirði Eystra í tvo mánuði sumarið 2015. Á meðan tökum stóð flutti Kristín fjölskylduna með sér en maðurinn hennar starfaði einnig við myndina. „Við tókum strákana okkar og tengdamömmu með okkur og fluttum austur. Þetta er einn fallegasti staður á Íslandi og við kynntumst þar yndislegu fólki.“

Kristín segir að krakkarnir í myndinni hafi verið sérstaklega metnaðarfull og einlæg auk þess sem áhuginn hjá þeim var gríðarlegur. „Þetta var yndislegt tímabil og ég er mjög heppin að hafa kynnst þeim,“ segir Kristín sem oft var kölluð mamma númer tvö á tökustað enda hélt hún að mestu leyti utan um ungu leikarana við byrjun og lok hvers tökudags. „Mér finnst þetta vera svolítið krakkarnir mínir og er ótrúlega stolt af þeim.“

Kristín myndi vilja sinna leiklistinni meira en hún gerir en hún hefur snúið sér meira að því að sjá um leikaraval. Þar er að mörgu að huga en sá ákveður í samráði við leikstjóra hvaða hlutverk hver fær og hverjir leika í myndinni. Kristín segist leita eftir því að leikarar séu með vítt svið í leiklistinni þegar þeir koma fram í áheyrnarprufum. Þeir þurfi að geta sýnt fram á allan tilfinningaskalann. Eins finnur hún stundum að leikarar hafi ákveðna nærveru eða sjarma og það hjálpar að sjálfsögðu til. Hjartasteinn hefur þegar hlotið 16 verðlaun víða um heim og hefur hlotið mjög góðar viðtökur eftir að hún fór í sýningar hérlendis. Kristín segir viðtökur hafa farið fram úr björtustu vonum þeirra sem komu að myndinni og vonar hún að svo verði áfram.


 

Náttúran spilar stóra rullu. Ungu leikararnir í myndinni og Kristín eru hér við æfingar í grænu grasinu.