Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Mamma laumar yfirleitt til mín kökudalli
Þriðjudagur 21. desember 2021 kl. 07:07

Mamma laumar yfirleitt til mín kökudalli

– með engiferkökum og appelsínuspesíum

Hlynur Þór Valsson er kennari og tónlistarmaður í Covid-dvala. Hann væri sáttur að fá góðan skeggsnyrti eða rakspíra. „Annars hef ég aldrei viljað fá stórar gjafir heldur frekar að vera bara með fólkinu mínu og eiga góða stund saman,“ segir hann í skemmtilegu jólaspjalli við Víkurfréttir.

Hvernig hagar þú jólagjafainnkaupum?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Betri helmingurinn á heimilinu er yfirleitt löngu búin að kaupa allar gjafir löngu áður en ég ranka við mér korter í jól. Áður voru þetta þungar og langar verslunarferðir í borg óttans en mikið pantað af netinu núna. Aðeins minna stress.

Hvað með jólaskreytingar, eru þær fyrr í ár?

Skreytingarnar eru svo sem ekkert mikið fyrr, við miðum yfirleitt við að byrja að skreyta í vikunni fyrir fyrsta í aðventu.

Skreytir þú heimilið mikið?

Alls ekki mikið, við á heimilinu erum bara nokkuð róleg í skreytingum innandyra og reglan minna er meira yfirleitt við lýði. Við vorum reyndar að flytja í einbýli og ég finn að það er stutt í Griswald gírinn núna þegar kemur að skreytingum utanhúss. Ég veit að einn góður nágranni minn vill endilega að ég bæti meira við.

Bakarðu fyrir jólin? Áttu þér uppáhaldssmáköku?

Ég baka ekki fyrir jólin en ég er svo heppinn að elskuleg móðir mín laumar yfirleitt til mín kökudalli með engiferkökum og appelsínuspesíum sem hverfa fljótt með ískaldri mjólk.

Eru fastar jólahefðir hjá þér?

Það eru svo sem ekki margar fastar venjur en margt hefur samt einhvern veginn alltaf verið gert á svipaðan hátt t.d. jólagjöfunum er alltaf pakkað inn á Þorláksmessu og keyrt út á aðfangadagsmorgni. Svo höfum við skipst á að verja jólunum hjá foreldrum mínum annarsvegar og tengdaforeldrum mínum hinsvegar annaðhvert ár. Ég stakk uppá að við vísitölufjölskyldan værum heima hjá okkur þessi jól en heimasætan hún Bergrún Embla tók það ekki í mál.

Hvernig er aðventan - hefðir þar?

Við höfum reynt að hafa sem minnst stress í desember og notið þess að vera heima hjá okkur. Það er þó einn viðburður sem er orðinn hefð en það er jólasíldin sem við og tvenn vinahjón okkar hafa haldið síðustu ár með pomp og prakt en Covid skemmdi það fyrir okkur síðustu jól og þá fann maður hvað það er mikilvægur viðburður til að koma manni í jólaskapið. Vonandi náum við að hittast í ár.

Hveru eru fyrstu jólin sem þú manst eftir? Áttu skemmtilega jólaminningu?

Ég er með ferlega lélegt minni. Eitthvað rámar mig þó að það hafi verið skrautlegt á jólunum þegar ég var barn á Hringbrautinni í Keflavík og rafmagnið var alltaf að detta út sem truflaði heldur betur eldhússtörfin. Málunum var reddað með prímus og öðrum hundakúnstum.

Hefurðu sótt messu um jólahátíðirnar í gegnum tíðina?

Ég hef ekki sótt í það að sitja messur nema að ég sé að spila eða syngja við einhverja athöfn.

Eftirminnilegasta jólagjöfin?

Það er eflaust gjöf sem að Ari Lár bróðir minn gaf mér eitt árið.

Pakkinn undir trénu var veglegur og þungur. Þegar ég opnaði hann blasti við mér heljarinnar úrval af vel völdum bókum. Með þeim var miði. Á miðanum var ég beðinn að skila bókunum ekki seinna en í lok janúar þar sem að Ari væri svo blankur núna að hann hefði ekki efni á að borga bókasafns sektina.

Er eitthvað sérstakt sem þig langar að fá í jólagjöf?

Ég væri sáttur að fá góðan skeggsnyrti eða rakspíra. Annars hef ég aldrei viljað fá stórar gjafir heldur frekar að vera bara með fólkinu mínu og eiga góða stund saman.

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Það er ekkert verið að flækja það og yfirleitt er það hamborgarhryggur en í raun er það bara eitt sem mestu máli skiptir en það er sósan hennar mömmu. Án hennar eru engin jól.