Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Þriðjudagur 4. nóvember 2008 kl. 12:02

Málþing og þjóðahátíð í Garðinum

Í tilefni af 100 ára afmæli Sveitarfélagsins Garðs verður staðið fyrir málþingi og þjóðahátíð þann 21. og 22. nóvember nk. Málþingið ber yfirskriftina Fræðsla gegn fordómum, jafnan er hálfsögð sagan ef einn segir. Það er haldið í Gerðaskóla, Garði  kl. 13:00-17:00 föstudaginn 21.11. Félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að ávarpa málþingsgesti auk þess sem meðal fyrirlesara eru virtir fræðimenn í málefnum innflytjenda, nefna má Dr. Bergþóru S. Kristjánsdóttir, lektor við Danmarks Pædagogiske Universitetsskole í Århus, Dr. Hallfríði Þórarinsdóttur, forstöðumann Mirra, Miðstöðvar innflytjendarannsókna og Toshiki Toma prestur innflytjenda á Íslandi. Júlia Esther Cabrera Hidalgo, deildarstjóri í leikskólanum Gefnarborg, Garði spyr hvort við séum ekki öll eins inn við beinið og mun m.a. fjalla um þróunarverkefnið Virðing og jákvæð samskipti. Þrjár málstofur verða og þeim munu stjórna Jóhann Björnsson, fræðslufulltrúi í Alþjóðahúsi, Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Akranesi og Elsa Arnardóttir, framkvæmdastjóri Fjölmenningarseturs á Ísafirði.

Laugardaginn 22. nóvember kl. 11:00-17:00 verður síðan þjóðahátíðin Einn fyrir alla, allir fyrir einn í Gerðaskóla. Þar munu Garðbúar af öllum þjóðernum njóta dagsins saman. Þar verða sýningar, kynningar og atriði á sviði sem m.a. nemendur í Tónlistarskóla Garðs, Gerðaskóla og Gefnarborg munu taka þátt í. Garðsdeild Norræna félagsins mun kynna störf sín, einnig  Rauði krossinn á Suðurlandi og Rætur, félag áhugafólks um fjölmenningu á Ísafirði. Í undirbúningi er stofnun félags áhugafólks um fjölmenningu þennan dag. Að sjálfsögðu verður svo kaffi með afar fjölmenningarlegu bakkelsi.
Í Garðinum er hærra hlutfall íbúa af erlendum uppruna en víðast í öðrum sveitarfélögum á landinu og eru þeir af 21 þjóðerni. Það er því eðlilegt að boða til þjóðahátíðar og með málþinginu er sveitarfélagið að bregðast við viðvarandi vandamáli í þjóðfélaginu með ábyrgum hætti. Segja má að oft sé þörf en nú sé nauðsyn að halda vel utan um íbúa bæjarins, ekki síður þá sem eru af erlendum uppruna sem geta verið afar óöruggir um framtíð sína á þessum tímum.

Allir eru velkomnir á málþingið og þjóðahátíðina og er aðgangur ókeypis á hvoru tveggja. Skráning á málþingið er í [email protected] og í síma 4227150 fyrir 19. nóvember.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024