Magnús skrifar Mola úr Garði
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, er byrjaður að skrifa blogg á heimasíðu Sveitarfélagsins Garðs. Bloggið kallar Magnús „Molar úr Garði“. Bætist Magnús þar í hóp bæjarstjóra hér Suður með sjó sem skrifa reglulega um málefni í sínu samfélagi.
Ásgeir Eiríksson skrifar vikulegt fréttabréf úr Vogum og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, hefur verið duglegur að skrifa um málefni Reykjanesbæjar á vef bæjarins.
Víkurfréttum er ekki kunnugt um hvort Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Grindavík eða Sigrún Árnadóttir bæjarstjóri í Sandgerði halda úti reglulegum fréttabréfum eða skrifum til bæjarbúa.
Um Mola úr Garði segir Magnús bæjarstjóri: „Á þessari vefsíðu mun bæjarstjórinn í Garði koma á framfæri ýmsum fróðleiksmolum um starfsemi Sveitarfélagsins Garðs og annað sem snertir sveitarfélagið með einhverjum hætti. Þá verður hér einnig sagt frá ýmsu sem á sér stað í Garðinum og hjá íbúum Garðs. Allt sem kemur fram á þessari vefsíðu er á ábyrgð bæjarstjóra“.