Magnús og Jóhann slógu botninn í Menningarvikuna
-Menningarviku Grindavíkurbæjar lauk í gærkvöld
Það var setið í hverju einasta sæti á Kaffihúsinu Bryggjunni í Grindavík í gær þegar Magnús Þór og Jóhann Helgason slógu botninn í Menningarvikuna sem staðið hefur síðustu viku í Grindavík.
Magnús og Jóhann, sem ólust upp í Reykjanesbæ, komu víða við á tónleikum sínum. Þeir fluttu gamalt efni í bland við nýtt og heilluðu tónleikagesti upp úr skónum.
Fullt hefur verið út úr húsi á nánast öllum viðburðum sem haldnir hafa verið á Bryggjunni í Menningarvikunni. Bryggjan hefur fest sig í sessi sem einn af helstu samkomustöðum Grindvíkinga.
Fjöldi tónleika og listviðburða fóru fram í Menningarvikunni í Grindavík sem lauk formlega í gær. Þungarokkhljómsveitin Skálmöld hélt tónleika í Kvikunni á laugardagskvöld og var þar fjöldi gesta. Menningarvikan var mjög vel heppnuð og var fjöldi grindvískra listamanna sem kom fram. Þetta er í fimmta sinn sem Menningarvikan er haldin en hún hefur vaxið með hverju ári.
Grindvíkingar voru einnig duglegir að taka myndir á snjallsíma sína á meðan menningarvikunni stóð og færa þær inn á samskiptaforritið Instagram. Margar skemmtilegar myndir má finna á heimasíðu Grindavíkurbæjar.
Skálmöld lék í kvikunni á laugardagskvöld. Mynd/Kristín María