Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Magnús og Bó tóku lagið við Stefnumótastaurinn
Magnús og Björgvin Halldórsson við stefnumótastaurinn. VF-myndir/pket.
Laugardagur 6. september 2014 kl. 12:02

Magnús og Bó tóku lagið við Stefnumótastaurinn

Tónlistarmaðurinn Magnús Kjartansson, einn af „sonum“ Keflavíkur, kveikti á Stefnumótastaurnum á horni Hafnargötu og Tjarnargötu í Keflavík síðdegis á föstudag á Ljósanótt. Hugmyndin að staurnum á rætur að rekja til lags Magnúsar Kjartanssonar, Skólaball, sem hljómsveitin Brimkló flutti svo eftirminnilega á sínum tíma. Björgvin Halldórsson söng lagið og segir það eitt af vinsælustu lögum sem hann hafi sungið í gegnum tíðina.

Við þetta skemmtilega tilefni tók Sönghópur Suðurnesja, sem Magnús stýrir, lagið og að lokum var það Björgvin Halldórsson sjálfur sem söng Skólaball með Magnúsi og Finnboga Kjartanssyni. Fjölmenni var við athöfnina og stemmningin frábær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tréstaur frá þessum tíma stendurnú á  þessu þekkta götuhorni við Tjarnargötu og Hafnargötu og á örugglega eftir að draga að sér margt fólk. Á honum er platti þar sem lesa má um tilurð lagsins og einnig texti þess. Svo er hnappur sem kveikir á bút úr laginu sem hljómar úr hátalara á straurnum.

Sagan segir að Magnús og vinur hans hafi verið skotnir í sömu stelpunni á skólaárum sínum eins og gengur og gerist. Á skólaballi sá Magnús á eftir vininum og stúlkunni læðast í burtu en sjálfur gekk hann særður út í nóttina. Hann kom sér síðan fyrir í skoti nálægt heimili hennar og beið átekta. Stúlkan birtist loks en var snöktandi og hallaði sér upp að ljósastaurnum umrædda. Magnús tók þá á sig rögg, fór til stúlkunnar og huggaði og til að gera langa sögu stutta þá eru þau Magnús hjón enn þann dag í dag.

Aðspurður segist Magnús hafa gaman af uppátækinu og hann vonist jafnvel til að þetta verði staður þar sem fólk fari á skeljarnar og beri upp bónorðið.

Ljósanótt hefur gjarnan verið hvati fyrir íbúa og sveitarfélagið til að hrinda í framkvæmd skemmtilegum hugmyndum eða verkefnum sem eru til hagsbóta fyrir bæinn eða jafnvel krydda bara upp á tilveruna.

Félagarnir sungu þetta frábæra lag við vígslu staursins.

Fjölmenni við við athöfnina.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra úr Keflavík var fyrsta konan til að hitta Magga við nýja staurinn.