Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Maggi dregur fram það besta í okkur“
Ragnheiður Halldórsdóttir og Steina Þórey Ragnarsdóttir.
Laugardagur 29. nóvember 2014 kl. 11:00

„Maggi dregur fram það besta í okkur“

Fyrstu jólatónleikar Sönghóps Suðurnesja framundan.

„Þetta eru fyrstu jólatónleikarnir okkar frá því að Maggi Kjartans byrjaði með sönghópinn fyrir fimm árum. Hingað til höfum verið að syngja á elliheimilum, sjúkrahúsinu og á Ljósanótt,“ segja Steina Þórey Ragnarsdóttir formaður og Ragnheiður Halldórsdóttir gjaldkeri Sönghóps Suðurnesja, en hópurinn mun halda tónleika í Keflavíkurkirkju fimmtudaginn 4. desember og hefjast kl. 20:30. Þar mun söng- og leikkonan Jana María Guðmundsdóttir stíga á stokk, auk sönghópsins Víkinganna. Þá munu þrír kórmeðlima syngja einsöng, þau Katrín Jóna Ólafsdóttir, Guðmundur Hermannsson og Bjarni Geir Bjarnason. Einnig ætlar Jóhann Smári Sævarsson, stjórnandi Víkinganna, að taka lagið.
 
 
Mikill metnaður í stjórnandanum
„Þetta verður fjölbreytt og skemmtilegt og við við munum flytja skemmtileg og falleg jólalög í léttum stíl. Bæði sem fólk þekkir og ekki. Fastur kjarni Sönghópsins er um 35 manns og við komum heim af æfingu full af gleði í hjartanu. Við erum líka dugleg að hittast og gera ýmislegt annað en að syngja,“ segja Steina og Ragnheiður, sem vilja taka sérstaklega fram að hópurinn væri ekki sá sem hann er ef Magnús Kjartansson væri ekki við stjórnvölinn. „Hann er alveg frábær, skemmtilegur og öflugur og leggur mjög mikinn metnað í þetta með okkur. Svo á hann svo auðvelt með að draga fram það besta í okkur öllum.“ 
 
Sögur frá gamla tímanum slæðast inn
Steina og Ragnheiður segja að það sé mikið hlegið inni á milli laga á æfingum því Magnús komi alltaf með svo skemmtilegar sögur. „Hann leggur einhvern veginn allt í þetta og það er svo greinilegt hvað honum finnst þetta sjálfum skemmtilegt. Það líka gaman fyrir okkur sem eru alin upp hér að hann slæðir alltaf sögum frá gamla tímanum inn á milli á tónleikum. Þau sem mæta á 4. desember mega því eiga von á frábærri skemmtun,“ segja þær að lokum, með von um að Suðurnesjamenn leiti ekki langt yfir skammt með upplyftingu á aðventunni.
 
VF/Olga Björt
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024