Magdalena Margrét FS-ingur vikunnar
Magdalena Margrét Jóhannsdóttir er FS-ingur vikunnar að þessu sinni en hún er nýlega tekin við embætti ritara í stjórn nemendafélagsins. Magdalena er 17 ára og stundar nám á hrað-náttúrufræðibraut en það er flýtinám fyrir duglega nemendur. Hún vinnur við afgreiðslustörf hjá Fitjagrilli með skóla og æfir Jazzballet hjá Danskompaníinu. Nú er Magdalena á fullu að skipuleggja Vizkustykki sem er skólablað nemendafélagsins og er það ritarans að vinna. „Fyrsti fundur gekk ljómandi vel og er ég mjög bjartsýn á komandi tíma,“ sagði Magdalena og greinilegt að það er nóg að gera hjá henni.
Uppáhalds…
Kvikmynd: Það eru myndir á borð við Clueless og Sex and the City sem trylla mig.
Sjónvarpsþættir: Modern Family!
Hljómsveit: Antony and the Johnsons eiga alltaf hug minn og hjarta en annars er ég mikið fyrir að eiga mjög margar uppáhalds hljómsveitir.
Skyndibiti: Subway.
Fag í skólanum: Það er danskan þar sem hún er langauðveldust og æðislegt tungumál. Ég ætti í rauninni að taka meira af henni þegar ég hugsa út í það.
Kennari: Haukur Ægis, sem ég lít á sem hálfgerðan FS-föður minn þar sem hann hefur fylgt okkur hraðferðarkrökkunum frá busaönninni okkar og er alltaf jafn ljúfur og góður við okkur. Það er þó alltaf stutt í stríðnina hjá honum.
Hvert er framtíðarstarfið?
Ef ég bara vissi. Það sem er þó heitast hjá mér þessa dagana er sálfræðin. Ég heillast mjög af henni en hver veit nema ég endi kannski bara á Alþingi eða jafnvel sem forseti.
Hvaða fimm vefsíður skoðar þú mest (fyrir utan facebook)?
Lookbook.nu, youtube.com, forever21.com, google.com og blogspot.com
Borðar þú þorramat?
Ég myndi ekki segja að ég setjist niður á þorranum og gæði mér á þorramat eins og sannir Íslendingar en mér finnst flatkaka með hangikjöti, harðfiskur, slátur og blóðmör samt sem áður algjört lostæti. Svo ég myndi segja að ég borði vægan þorramat.
Hvað gerir ritari NFS?
Fyrst og fremst sér ritari NFS um skólablaðið Vizkustykki og að skrifa niður fundargerðir á fundum. Svo eru strákarnir í stjórninni eitthvað smeykir við stelpukvöldið svo ætli ég verði ekki látin sjá um það ásamt Ólöfu þar sem við erum einu stelpurnar í stjórninni.
[email protected]