Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 24. nóvember 1999 kl. 21:28

MAGASPEGLUN

Nýverið barst okkur á HSS höfðingleg gjöf frá Kvenfélagasamandi Gullbringu- og Kjósarsýslu en það var magaspeglunartæki. Það kom í stað gamals tækis sem var orðið úr sér gengið. Svona tæki er mesta þarfaþing, með því má skoða vélinda, maga og skeifugörn að innanverðu og finna þannig orsakir ýmissa óþæginda. Nú er það svo að verkir í kvið eru mjög algengir en sjaldnast er þörf á speglun. Því þarf læknir að meta manninn og ákveða hvað er best að gera. Verkir í ofanverðum kvið geta verið frá vélinda, maga, skeifugörn, gallblöðru, brisi eða lifur svo að fátt eitt sé talið og oft nægir að bíða, verkir líða hjá og ekkert þarf frekar að gera. Blóðprufur hjálpa oft og gefa til kynna hvaðan verkir koma og þar með má ákveða viðeigandi meðferð. ómskoðun er rannsókn sem er sérstaklega góð fyrir gallblöðru og lifur og getur þá t.d. sýnt gallsteina og sennilega þarf þá að taka gallblöðruna. Maginn framleiðir saltsýru, sem drepur sýkla og tekur þátt í meltingu fæðunnar, en ef framleiðslan er of mikil, eða varnir magaklæðningar bresta, eða sýran kemst þangað sem henni er ekki ætlað, þá getur hún valdið miklum óskunda: bólgu og sárum með tilheyrandi verkjum. Einkennin eru oft nokkuð ljós og læknirinn gefur þá sýruhemjandi lyf og ef allt gengur vel er lækning vís. Ef bati verður ekki er kominn tími til að athuga magann betur með magaspeglun. Speglunartækið er eins og grönn slanga, inni í henni eru vírar sem eru fastir í endanum og ef strekkt er á þeim svignar slangan í endann og má þannig stýra henni. Einnig eru í henni tveir ljósleiðarar og er ljós sent niður eftir öðrum til þess að lýsa upp magann og hinn ljósleiðarinn leiðir ljós frá linsu á endanum upp í linsu á handfanginu þar sem læknirinn kíkir. Einnig eru í slöngunni rásir þar sem renna má niður örsmáum töngum til þess að taka sýni. Sá sem spegla skal er deyfður með úða í kokið, hann fær smáskammt af róandi lyfi í æð og síðan er slöngunni rennt inn um munn, aftur í kok og áfram niður vélindað. Haldið er áfram niður í maga og þaðan út í skeifugörn og allt skoðað vandlega á leiðinni. Þannig sér læknirinn ef eitthað er að í þessum líffærum og getur lagt á ráðin um viðeigandi meðferð. Við starfsfólk HSS erum hæstánægð með nýja tækið og að geta boðið þessa þjónustu í heimabyggð og kunnum röggsömum konum kærar þakkir fyrir gjöfina. Árni Leifsson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024