„Mælum sannarlega með svona afmælisveislu“
-Feðginin Jana María Guðmundsdóttir og Guðmundur Hreinsson héldu tónleika í Hljómahöll
„Pabbi varð sextugur í lok ágúst og okkur fannst það verðug tímamót til að efna til tónleika,“ segir Jana María, en síðastliðið þriðjudagskvöld héldu þau feðginin tónleika í Hljómahöll. Þeim til halds og trausts var hljómsveitarstjórinn Magnús Kjartansson ásamt hljómsveit.
„Það gekk virkilega vel. Áhorfendur gengu út af glaðir í bragði og fannst þetta frábær skemmtun. Lagavalið var fjölbreytt og flutningur með hljómsveit og Sönghópi Suðurnesja var lifandi blanda sem skilaði sér til vel til áhorfenda. Við erum sæl og þakklát eftir húsfylli á 60 ára afmæli Guðmundar og mælum sannarlega með svona afmælisveislu,“ segir Jana María.
Á tónleikunum var farið í gegnum sögu og tónlist Guðmundar, en hann hefur lengi samið lög og texta. „Það er nokkuð magnað að vinna með pabba sínum,“ segir Jana María, en hún hefur lengi verið í tónlist og mun í haust gefa út sína fyrstu breiðskífu sem ber heitið FLORA og inniheldur hennar eigin lagasmíðar og texta.