Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mæðgin saman í kór
Katrín Júlía, Júlíus Viggó og Gunnar.
Sunnudagur 27. janúar 2019 kl. 08:00

Mæðgin saman í kór

Margir syngja í sturtu og láta það duga og æra jafnvel heimilisfólkið sitt í leiðinni. Þessi mæðgin byrjuðu bæði fyrir ári síðan í kirkjukór í Útskálaprestakalli, sem þjónar bæði Garði og Sandgerði. Þeim finnst báðum ótrúlega skemmtilegt og gefandi að syngja í kór. Mömmuna hafði dreymt um það lengi að syngja í kór en sonurinn álpaðist inn á kóræfingu, heillaðist og hefur verið með hópnum síðan. Katrín Júlía Júlíusdóttir heitir mamman og sonur hennar er Júlíus Viggó Ólafsson sautján ára, elstur af þremur systkinum.

Hvers vegna að syngja í kór?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Mig hefur alltaf langað til að syngja í kór. Í janúar á síðasta ári ákvað ég að láta slag standa fyrst kórinn er starfandi hér í Sandgerði. Ég var búin að gæla við að vera í kirkjukór í Keflavík en svo þegar ég frétti af nýja kirkjukórnum hér í bæ þá sló ég til og sé ekki eftir því. Þetta er búið að vera svo ótrúlega gaman, miklu skemmtilegra en ég hefði getað ímyndað mér. Kórstjórnandinn Keith Reed er líka svo skemmtilegur og lifandi. Hópurinn er einnig svo góður. Þetta er svo jákvætt allt saman. Þegar ég var búin að vera nokkur skipti þá datt mér í hug að spyrja elsta soninn hvort hann vildi kíkja á æfingu með mér,“ segir Katrín Júlía og horfir á soninn Júlíus Viggó sem segir: „Ég sagði strax við hana að ég hefði engan tíma í kórastarf, þarna var ég byrjaður að læra söng í tónlistarskólanum í Sandgerði en ákvað að kíkja samt á æfingu með henni. Það var tekið svo vel á móti mér og mér leist strax það vel á hópinn og stjórnandann, sem er mjög skemmtilegur og góður stjórnandi, að ég er ennþá í kórnum. Mér finnst líka pásurnar góðar en þar kynnumst við öll betur og það kom mér á óvart hvað þetta er gaman. Ég er að læra söng og mér finnst mikill heiður að fá að læra líka af Keith Reed eins og söngkennara mínum Jóhanni Smára Sævarssyni.“

Uppbyggilegt ár í söng

„Við enduðum öll í jólaboði eftir aðventutónleikana heima hjá kórstjórnandanum og það var mjög skemmtilegt svona í lokin. Á kóræfingum kennir Keith okkur að opna okkur í söngnum, að vera ekki þvælast fyrir sjálfum sér. Söngur lyftir manni upp, það er að leyfa þessu að flæða,“ segir Katrín Júlía.

„Já, ég er sammála. Allur þessi söngur hefur hjálpað mér einnig að jarðtengjast. Þetta ár er búið að vera mjög uppbyggilegt finnst mér og ég er búin að finna mig vera hluti af einhverju stærra en ég sjálfur. Það gerist eitthvað innra með manni þegar maður syngur með öðrum í kór. Það er gott og róandi að syngja. Að vera hluti af stærri hóp sem er að syngja saman og senda sönginn út til þeirra sem hlusta á okkur. Ég hef mest verið að syngja einn svo þetta er alveg nýtt fyrir mér, að syngja í kór. Það er góð tilfinning,“ segir Júlíus Viggó sem byrjaði að koma fram sem lítið barn ásamt föður sínum, Ólafi Þór Ólafssyni bæjarfulltrúa og tónlistarmanni í Sandgerði.

Mæðginin tala bæði um hvað Suðurnesjamenn séu heppnir að hafa einvala lið kórstjórnenda á svæðinu. Tónlistin lifir góðu lífi með svona flott fólk við stjórnvölinn.

Mikilvægt að læra söngbeitingu

„Ég tók svolítið u-beygju núna frá því að læra rytmískan, venjulegan söng yfir í að læra klassískan söng hjá söngkennara. Mér finnst þetta ótrúlega spennandi söngnám. Mér var stundum illt í hálsinum áður því ég kunni ekki að beita röddinni alveg rétt. Nú er þetta allt að koma og það er svo miklu skemmtilegra að syngja með öllum líkamanum eins og maður lærir í klassískum söng. Mér fannst svo merkilegt þegar ég fór að spá í það hvað klassískur söngur hefur lifað lengi, nokkur hundruð ár eða mun lengur. Hann hófst þegar engir hljóðnemar voru til og söngvarar urðu að láta röddina berast til hundruði áheyrenda í óperusal með sinfóníuhljómsveit í grunninn sem spilaði eðlilega mjög hátt. Þetta hefur verið mikil áskorun,“ segir Júlíus Viggó áhugasamur og blaðamaður heillast einnig af þessari vitneskju. Já hugsa sér.

„Ég væri í kórnum þótt Júlíus Viggó væri ekki með okkur en ég verð þó að viðurkenna að mér finnst æðislegt að syngja með honum. Við erum að kynnast á nýjan hátt. Hann er Júlíus Viggó og ég er Katrín Júlía, bæði einstaklingar á jafningjagrunni, í sama kór, hópi sem spjallar og kynnist betur í pásunum en það er líka partur af því að vera í kór, að kynnast betur kórfélögum sínum. Það er ekki síst útaf því hvað fólkið er skemmtilegt að maður vill halda áfram að syngja í kirkjukórnum. Keith er líka alveg ótrúlega góður kennari og stjórnandi. Hann er alveg yndislegur og þetta eru skemmtilegar æfingar sem maður hlakkar til að mæta á,“ segir Katrín Júlía.
Mæðginin eru bæði sammála um það að Keith sé frjór og hiki ekki við að henda inn hugmyndum og framkvæma þær innan fárra daga við messur. Til að mynda datt honum í hug á síðustu æfingu fyrir jól að fá Gunnar, miðjubarnið hennar Katrínar, til að syngja lag sem Keith söng sjálfur þegar hann var lítill drengur í Ameríku. Hugmyndin kom í lok æfingarinnar og engin æfing eftir fyrir jól svo hann hitti drenginn bara einu sinni, æfði og keyrði svo á flutning í jóladagsmessu í báðum sóknum. Einsöngur Gunnars tókst með ágætum og hver veit nema hann vilji einnig syngja með kirkjukór í framtíðinni.