Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Maðurinn á bak við tjöldin
Þórhallur Arnar tók á móti Víkurfréttum í Hljómahöll. VF-mynd: Sólborg
Mánudagur 18. desember 2017 kl. 06:00

Maðurinn á bak við tjöldin

-Hljóðmaðurinn Þórhallur Arnar stefnir langt í bransanum

„Draumurinn er að fá að ferðast um heiminn sem hljóðmaður hjá einhverri hljómsveit eða listamanni,“ segir Þórhallur Arnar Vilbergsson, en í dag starfar hann sem alhliða tæknimaður og verkefnastjóri í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ og tekur þar að auki að sér verkefni sem hljóð- og ljósamaður fyrir hljómsveitir og tónlistarmenn.


Hljóðblandar Jón Jónsson og hljómsveit í Hljómahöll.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Starfið mitt er rosalega fjölbreytt. Fyrst og fremst sé ég um tæknimál á viðburðum. Ég geri sviðið klárt eftir umfangi viðburðarins, geri hljóðprufu þegar þess þarf og svo sit ég yfir á meðan viðburður er í gangi. Ef ég sé sjálfur um hljóðið þá passa ég líka upp á það að ljós séu rétt sett upp og ræð einhvern ljósamann til þess að keyra þau. Svo sé ég um allan tæknibúnað í húsi Hljómahallar, allt frá því að skipta um ljósaperu í loftinu yfir í að yfirfara hljóðbúnaðinn.“

Áhugi Þórhalls á starfi hljóðmanns kviknaði þegar hann aðstoðaði vini sína, þegar hann var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja, við það að setja upp hina ýmsu viðburði fyrir skólann. „Út frá því tók ég að mér nokkur verkefni sem verktaki, bæði við hljóð og ljós.“


Hljóðblandar tónleika Mammút í New York.

Árið 2015 flutti Þórhallur svo til Manchester þar sem hann lærði hljóðblöndun. Hann þurfti þó að hætta fljótlega vegna fjárhagsvandræða, en þegar hann flutti heim fékk hann starf í Hljómahöll. „Þar fékk ég tækifæri til að afla mér reynslu sem hljóðmaður á alls konar viðburðum. Þá var ekki aftur snúið.“ Hann segir frábært að vinna í Hljómahöll. „Ég vinn með yndislegu fólki og það er geðveikt að fá að taka þátt í starfinu sem er í gangi í þessari menningarmiðstöð Reykjanesbæjar.“ Í Hljómahöll hefur Þórhallur til dæmis fengið að hljóðblanda tónleika hjá Amabadama, Jóni Jónssyni, Friðriki Dór, Dúndurfréttum, heiðurstónleika Trúbrots og svo lengi mætti telja.


Þórhallur sá um sviðshljóðið á útgáfutónleikum Dimmu í Háskólabíó.

Aðspurður hvaða verkefni hafi verið skemmtilegust nefnir Þórhallur til að mynda tónleika Valdimars í Hljómahöll í fyrra sem hann segir með skemmtilegri tónleikum sem hann hefur hljóðblandað, en hann hefur einnig aðstoðað vini sína í hljómsveitinni við upptökur á plötunni sem þeir vinna nú að þessa dagana. „Tónleikar Valdimars verða ennþá betri núna í ár, þann 30. desember.“

Þá segir Þórhallur það einnig hafa verið gríðarlega skemmtilegt að taka þátt í Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni nú í ár þar sem hann sá um hljóðið fyrir tugi listamanna á tónleikastað í miðbæ Reykjavíkur. Bandaríkjaferðirnar hans skora líka hátt á listanum, en hann kom nýverið heim úr einni slíkri.

Fyrir stuttu ferðaðist hann annars vegar með hljómsveitinni Mammút og hins vegar með hljómsveitinni Fufanu. „Mér var boðið að hljóðblanda fyrir hljómsveitirnar á tónleikum sem kallast Taste of Iceland og eru haldnir af Iceland Naturally víðs vegar um Bandaríkin. Í þetta skipti fórum við til New York, Seattle og svo til Toronto í Kanada. Þetta var frábær upplifun og stækkaði reynslubankann alveg helling.“ Þórhallur segir þær ferðir hafa verið einstaklega skemmtilegar, sérstaklega í ljósi þess að hann hafði lengi hlustað á báðar hljómsveitirnar og séð þær á tónleikum.


Hljóðblandar beina útsendingu Mammút hjá KEXP útvarpsstöðinni í Seattle.

Aðspurður um framtíðina segist hann sjá fyrir sér að flakka á milli þess að vinna við tónleikahald og í upptökuverinu. „Ætli maður fari ekki bara að vinna sem verktaki fyrir hina og þessa, prófa að vinna hjá sjálfum sér. Það væri gaman að komast meira erlendis með einhverjum skemmtilegum tónlistarmönnum.“

[email protected]