Maður lærir ýmislegt af heimildamyndum
Eyrún Ósk Elvarsdóttir er sjúkraliði úr Njarðvík og hefur starfað á því sviði frá 2008. Eyrún á einn 6 ára gamlan strák og hefur mjög gaman að íþróttum. Þá helst körfubolta en hún fylgist sérstaklega vel með íslenskum körfubolta. Einnig finnst henni mjög gaman að elda og borða góðan mat. Annars er það fjölskyldan, vinirnir og almenn hreyfing sem á hug hennar allan. Við spurðum Eyrúnu hvaða afþreyingu hún sækist helst í þessa dagana.
Bókin: Bækurnar sem ég hef verið að lesa undanfarið eru barnabækur sem ég les fyrir son minn fyrir svefninn. Fyrir utan barnabækurnar þá voru það bara skólabækurnar þar sem ég er rosalega lítið fyrir bókalestur. En það er spurning hvort maður fari að bæta það upp og detta í lestur um jólin.
Þættirnir: Þættirnir sem ég er að horfa á núna heita Narcos og eru um kólumbíska eiturlyfjasalann Pablo Escobar. Mjög spennandi og vel gerðir þættir. Einnig er Grey’s Anatomy í miklu uppáhaldi hjá mér
þar sem þeir tengjast áhugasviði mínu. Heimildaþættir og -myndir finnst mér mjög áhugavert að fylgjast með og lærir maður ýmislegt af því.
Tónlistin: Ég er alæta á tónlist, fer allt eftir stað, stund og skapi. En til að nefna dæmi eru Strumbellas og þá aðallega eitt lag með þeim sem heitir Spirits. Calvin Harris, mér finnst nýja lagið hans, My way, mjög gott. Beyoncé og Coldplay eru líka nokkuð oft í spilun hjá mér þessa dagana.