Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Maður er allur góður í líkamanum eftir svona tíma
Sunnudagur 10. maí 2015 kl. 07:00

Maður er allur góður í líkamanum eftir svona tíma

OM-setrið í Reykjanesbæ hefur boðið upp á einu parajógatíma landsins.

Anna Margrét Ólafsdóttir bauð í vetur upp á parajógatíma í ÓM-setrinu í Kjarnanum í Reykjanesbæ. Líklega er um að ræða einu parajógatímana á landinu. Tímarnir eru ekki aðeins fyrir kærustupör og hjón, heldur hafa mæðgur og vinir komið og sótt tímana. Víkurfréttir litu þá við og hittu þar Önnu Margréti og unnusta hennar, Inga Þór Ingibergsson. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvernig komu þessir parajógatímar til? 

„Mig langaði svo mikið sjálfa að fara í parajóga og sameina jógatímana og samverustundir með manninum mínum. Svo fór ég bara að skoða og lesa mig til og ákvað í kjölfarið að bjóða upp á námskeið,“ segir Anna Margrét.  

Og hvernig líst manninum hennar á þetta? 

„Mér líst bara mjög vel á þetta. Skemmtilegt og gaman að gera eitthvað svona með konunni, annað en að sitja bara í sófanum og horfa á sjónvarpið. Mjög gott og maður er allur góður í líkamanum eftir svona tíma og nær einhvern veginn svona miklu betri teygjum þegar við erum tvö að þessu,“ segir Ingi Þór.  

Ég las í námskeiðslýsingu að þetta hefur svo góð áhrif á samband paranna, á hvernig hátt? 

„Í fyrsta lagi, þá er ekkert annað áreiti í jóga. Þá slekkur maður á símanum og það er ekkert annað sem truflar. Kennarinn leiðir þig áfram og þegar þú ert í parajóga þá er athyglin á sjálfum þér fyrst og fremst, síðan á makanum. Þú byrjar alltaf á að anda einn og sér og svo gerum við æfingar tvö saman. Þannig er athyglin algjörlega á sjálfum manni og svo makanum.“ 

Og getur þetta á auðveldan hátt bætt samband fólks? Hefurðu séð það gerast? 

„Já ég er ekki í vafa um það. Þetta er bara svo nýtt námskeið en ég er viss um að þetta hefur jákvæð áhrif á öll sambönd.“

Þið hljótið að vera mjög samstíga par. Þið starfið saman í Hljómahöllinni og eruð svo saman hér líka. Er sambandið ekkert of mikið? 

„Nei, merkilegt, þá hefði maður haldið að við gætum fengið leið og á því að vinna saman. Við erum bara að elska þetta. Við erum svo skemmtileg,“ segja þau hlæjandi. Ingi Þór er fæddur og uppalinn Keflvíkingur og Anna Margrét er uppalinn Selfyssingur. „Við tókum þá ákvörðun að flytja hingað. Við erum alsæl hér.“

Hvernig hafa viðbrögðin verið hjá pörunum sem komið hafa hingað? 

„Þau hafa verið alveg ótrúlega góð og jákvæð. Ég vil bara fá fleiri pör, ég held að fólk sé pínu feimið. Ég hef fengið spurningar eins og: Þarf ég að vera liðugur til að koma eða verið í jóga áður? Er þetta eitthvað tantra-jóga? Þetta gengur bara út á að vera saman, gera öndunaræfingar, teygjuæfingar og styrktaræfingar. Mjög góð og endurnærandi slökun í lokin. Þetta er ekki bara fyrir kærustupör eða hjón. Hingað komu mæðgin um daginn, vinkonur og allskonar. Við hvetjum allar gerðir para til að koma og prófa. Það þarf engan sérstakan grunn, ég reyni bara að fara rólega og í grunnöndunaræfingar og léttar líkamsæfingar sem pör geta gert saman. Svo er gaman að bæta því við að þetta er náttúrulega heilsurækt og líkamsrækt líka. Það var hérna ein um daginn sem fékk harðsperrur á stöðum þar sem hún hélt hreinlega að hún hefði ekki vöðva. Þá var greinilega kominn tími á að fara í jóga,“ segir Anna Margrét, sem er um þessar mundir með byrjendanámskeið í jóga og kennir opna tíma alla miðvikudaga frá 12:05-12:55. Tilvalið sé að skella sér í hádegishléinu. Einnig ætlar hún að skella sér i aerial jógakennaranám í byrjun júní og kenna það svo næsta vetur.  

Anna Guðrún og Arnar, vinstra megin. 

 

Æðislegt að gera eitthvað annað en að sitja uppi í sófa

Kærustuparið Anna Guðrún Heimisdóttir og Arnar Stefánsson eru meðal þeirra para sem sótt hafa námskeiðið og tók Víkurfréttir þau tali. 

„Þetta er bara æðislegt, gott að komast út og vera saman, gera eitthvað annað en að sitja uppi í sófa. Ég var búin að stunda jóga og var að draga hann með mér núna,“ segir Anna Guðrún og Arnar tekur undir það og segir þetta fína og skemmtilega tilbreytingu. 

 

Var ekkert mál að sannfæra þig [Arnar] um að koma í jóga?

„Nei, hún var búin að gera þetta í einhver tvö ár og ég var búin að fylgjast með henni og læra eitthvað smá af henni. Ég sé hvað henni líður vel og hvað þetta hefur góð áhrif á hana. Ég bara varð að prófa þetta.“ 

Hefðirðu farið í jóga sem er ekki parajóga? 

„Ég veit það ekki alveg. Þetta var bara gott tækifæri til að prófa og kúpla sig frá vinnunni.“ 

Er þetta búið að hafa góð áhrif á ykkar samband?

„Já þetta er bara mjög gott. Gott að koma hingað og vera saman. Við gerum alls kyns jafnvægisæfingar og setjum smá traust á hvort annað,“ segir Anna Guðrún. Þetta er svolítið auðvelt til að byrja með þegar við erum að læra grunninn, svo verður þetta bara jafn erfitt og maður vill hafa það. Svo er bara mjög gott að slaka á saman í lokin,“ segir Arnar. Spurð segjast þau svo að lokum alveg til í að fara á framhaldsnámskeið. 

VF/Olga Björt