Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Maður á ekki að gefa drauma sína upp á bátinn
Miðvikudagur 25. desember 2013 kl. 12:09

Maður á ekki að gefa drauma sína upp á bátinn

Pétur Bragason er 38 ára Garðbúi, sonur Braga Guðmundssonar og Valgerðar Þorvaldsdóttur. Pétur er því Grindvíkingur í föðurætt og Garðbúi í móðurætt. Hann býr í Garðinum og hef búið þar stærsta hlutann af sínu lífi. Hann segir fara mjög vel um sig og sína fjölskyldu í Garðinum þar sem hann er í sambúð með Birtu Ólafsdóttur þroskaþjálfa. Birta er frá Egilsstöðum en á ættir sínar að rekja til Hafnarfjarðar, Grindavíkur og Ísafjarðar. Þau eiga tvo góða og duglega stráka, Ólaf Jóhann 11 ára og Braga Val 7 ára sem eru miklir gleðigjafar. Helstu áhugamál fjölskyldunnar eru hestamennska, fjölskyldan, vinnan, ferðalög og fótbolti. Pétur er í viðtali við SUÐUR MEÐ SJÓ.

„Fyrstu minningarnar úr vinnunni hjá pabba eru að moka skurð við bensínsjoppuna og að þrífa fokheldan kjallarann í íþróttamiðstöðinni, moka sementsdrullunni í fötu og hífa upp með kaðli um stigagatið. Þá var ég 7 ára,“ segir Pétur þegar hann rifjar upp fyrstu skrefin í vinnu fyrir pabba sinn, Braga smið í Garðinum. „Það var frábært að vinna með pabba sínum og við unnum mörg skemmtileg verkefni. m.a. við íbúðarhús forseta Íslands á Bessastöðum með afa og Magga frænda í Grindavík. Það voru margir skemmtilegir vinnufélagar og svo fékk maður tækifæri á að vinna með mönnum eins og Guðna á Garðsstöðum eitt sumarið við að bora, sprengja og skutlast smá með í bláa trukknum. Það var ógleymanlegt. Mér fannst þá skemmtilegast að slá upp, járnabinda, steypa og rífa utan af. Ég hafði í þá daga ekki mikla þolinmæði. Teddi vinur minn í Garðinum þekkir það. Ég hef lært þolinmæði í dag“.



Fannst skynsamlegt að læra meira

Pétur segir að það eigi vel við sig að smíða, teikna og reikna og sér finnast það mjög skemmtilegt.

„Ég lærði húsasmíði og langaði að vinna við það í framtíðinni með pabba mínum. Ég hryggbrotnaði í vinnunni þegar ég var 22 ára og fannst þá skynsamlegt að læra meira ef líkaminn á endast vel fram á síðasta dag í krefjandi vinnu. Byggingageirinn krefst líka í dag meiri menntunar og víðari þekkingar en áður. Ég valdi því að fara til Kaupmannahafnar í verkfræði, víkka sjóndeildarhringinn og sjá aðeins heiminn í leiðinni. Ein allra besta ákvörðun sem ég hef tekið hingað til“.

Þegar Pétur kom heim frá Kaupmannahöfn starfaði hann hjá Grindavíkurbæ sem yfirmaður tæknideildar í 18 mánuði á sama tíma og hann var að klára skólann.

„Það var hálfgert brjálæði að vera nánast reynslulaus verkfræðinemi í nýjum aðstæðum, vera ekki búinn að ljúka námi, koma upp fjölskyldu og vinna svo ábyrgðar- og umfangsmikið starf á miklum þenslutímum. Ég lærði mjög mikið á stuttum tíma, bæði um mig og annað fólk og fullorðnaðist hratt. Ég mæli ekki með þessari hraðsuðu aðferð en kynntist mörgum góðum Grindvíkingum. Ég þarf mitt frelsi til að blómstra og nýta það sem best sem í mér býr,“ segir Pétur sem ákvað því að segja upp og stofna verkfræðistofuna Verkmátt í febrúar 2008. „Ég varð kátari og skemmtilegri fyrir vikið,“ segir hann og brosir.

- Hvernig er fyrir ungan mann að fara út í fyrirtækjarekstur?
„Verkfræðistofan Verkmáttur er skemmtilegt, en mjög krefjandi verkefni. Ég er búinn að læra mjög mikið á þessu og það hafa verið margar svefnlausar og áhyggjufullar nætur undanfarin ár. Er krefjandi andlega og líkamlega á erfiðum tímum. Þessi reynsla er hins vegar frábært veganesti fyrir framtíðina og mun reynast mér vel. Ég hef hins vegar sofið vel á þessu ári og er mjög heilsuhraustur.

Ég var lengst af með þrjá starfsmenn og unnum við mörg skemmtileg verkefni sem við getum verið mjög stoltir af, m.a. Hópsskóli í Grindavík, stækkun Gerðaskóla í Garði, hausaþurrkun Háteigs á Reykjanesi, fiskverknun í Sandgerði og viðbyggingu við íþróttamiðstöðina í Garði“.



Sérhæfir fyrirtækið í verkefnastjórnun mannvirkja

- Hvað kom til að þú tókst að þér þessa vinnu í Noregi?
Rekstur Verkmáttar var mjög þungur 2009 og 2010 sem vannst of hægt til baka. Ég greip ekki rétt og nógu hratt inn í þá og var einfaldlega að renna út á tíma. Ég varð að fá eins örugga rekstrarafkomu og hægt svo að fyrirtækið væri orðið aftur fjárhagslega sterkt. Það er grunnforsendan fyrir farsælu fyrirtæki og geta byggt upp til framtíðar. Reksturinn hefur gengið mjög vel á þessu ári og sama verður á næsta ári. Ég verð búinn að ná þessu langþráða markmiði mínu næsta sumar og keppist við að ná því eins hratt og ég get. Það verður sigurtilfinning sem ég ætla að njóta“.

Pétur sagði öllum starfsmönnunum verkfræðistofunnar upp í lok desember 2012 og er eini starfsmaður Verkmáttar í dag.



„Það var erfið en rétt ákvörðun. Öll aðstaða er ennþá til staðar í Garðinum við Heiðartúnið en er lítið notuð í augnablikinu. Verkmáttur vinnur svo sem undirverktaki fyrir norska vandaða og mjög trausta verkfræðistofu og er í dag með samning um verkefni fram til í apríl-mánaðar 2017. Ég get svo unnið meira eftir það ef ég vill í Noregi“.

Pétur hefur endurskoðað rekstur Verkmáttar mjög vel á þessu ári og hefur m.a. ákveðið að sérhæfa fyrirtækið í verkefnastjórnun mannvirkja og það mun starfa bæði í Noregi og á Íslandi. Nafni Verkmáttar ehf. var breytt í samræmi við þetta í Variant ehf. til þess að henta betur á erlendum markaði og nafnið er líka mun þjálla og þægilegra. Þá var ný heimasíða var gerð og fleira í þeim dúr.

„Fyrirtækið mitt fékk Evrópuverðlaun í Frankfurt fyrr á þessu ári fyrir vönduð vinnubrögð sem var góð upplifun. Þetta er því á skemmtilegra réttri leið“.

Pétur segir að starfsmönnum fyrirtækisins verði fjölgað aftur þegar það er tímabært og byggt verður upp á réttan hátt afburðar fyrirtæki, sterkt, vandað og spennandi.



Stýrir stórum verkefnum

- Hvaða verkefni er þetta sem þú ert að vinna að í Noregi?
„Þetta eru fyrst og fremst tvö verkefni sem ég vinn í. Það fyrra er hönnunarstjórnun á mjög vönduðum 9600 m2 grunnskóla í Bergen sem er byggður eftir umhverfisvænum stöðlum og er sérstaklega hannaður fyrir heyrnarlausa. Fullnaðarhönnun er á seinustu metrunum og framkvæmdir eru hafnar við niðurrif á eldri byggingu og uppbyggingu nýs vegar að skólanum. Framkvæmdakostnaður er ca. 8,5 milljarður króna. Það hefur verið krefjandi og lærdómsríkt verkefni.

Hitt verkefnið sem ég er í, þá er ég verkefnastjóri yfir þremur stórum verkefnum fyrir Hå kommune sem er rétt fyrir utan Stavanger. Framkvæmdakostnaður fyrir þessi þrjú verkefni er samtals ca. 23 milljarðar króna. Fyrsta verkið er hafið af því og það er óvenju vandaður 7400 m2 grunnskóli með sér aðstöðu fyrir fatlaða.  Við erum núna í forhönnun og frágangi á deiliskipulagi. Verkið verður jafnvel stækkað verulega en ákvörðun verður tekin um það í desember. Skólinn mun kosta á bilinu 8 til 9,5 milljarða eftir því hvað verður valið að bæta við verkið. Framkvæmdir hefjast svo næsta sumar. Svo bíður annar minni grunnskóli og myndarlegt menningarhús sem er aðeins byrjað að undirbúa.



Skilur vel þá sem setjast að í Noregi

- Hvernig er að vera í Noregi?
„Noregur er frábært land og ég skil vel þá sem setjast hér að. Ég bjó í Bergen á gistiheimili frá október til desember 2012 og síðan deildi íbúð í Bergen frá janúar 2013 til apríl 2013. Bergen er mjög flottur bær, líflegur og fallegur.

Síðan í apríl hef ég unnið á tveimur stöðum, er jafnan í Hå kommune fyrri part vikunnar og svo fimmtudaga og föstudaga í Bergen. Í Bergen sef ég á gistiheimili en er á skrifstofu við sjóinn þess á milli. Í Hå kommune leigi ég nýtt lítið raðhús í 6000 manna bæ sem heitir Nærbø. Þetta svæði er mjög huggulegt, allt grænt og flatt, fullt af fallegum sveitabæjum, gamlir hlaðnir grjótgarðar, hjóleiðarstígar út um allt, vinalegt og duglegt fólk, stutt í sjóinn og hvít sandstönd og svo er ég 40 mínútur í miðbæ Stavanger. Ég er svo með vinnuaðstöðu á bæjarskrifstofunum. Milt og gott veður og mikill velsælt hjá íbúum. Allt óvenju snyrtilegt og fólk eldist áberandi vel og er jafnan í góðu formi. Það er mikið lagt upp úr íþróttum og útivist og meira að segja íslenskir hestar stutt frá. Þetta er svona stækkuð og nútímalegri mynd af Garðinum,“ segir Pétur brosandi.



Vinnur langan vinnudag

- Hvernig er venjulegur vinnudagur hjá þér?
„Síðan í byrjun apríl, fyrir utan sumarfríðið í sumar, þá fer ég jafnan á fætur kl. 05:00. Tek lest í vinnuna og byrja að vinna kl. 06:00 þegar ég er í Hå en 06:30 þegar ég er í Bergen. Ég geng í vinnuna í Bergen. Ég hef farið með flugi eða ferju á milli Stavanger og Bergen þegar þess þarf. Ég vinn langan vinnudag sex daga í viku. Ég hef verið heima á Íslandi ca. eina viku í mánuði undanfarið og vinn þá aðeins þá líka. Tek t.d. videofundi til Bergen frá Reykjavík.

Vinnan mín er nær öll við tölvu eða fundarborð. Þar geri ég hinar ýmsu áætlanir og fylgi þeim eftir, reka á eftir hinum ýmsu verkum, fer yfir reikninga, geri samninga og útboðsgögn, fer yfir gögn frá hönnuðum og brátt verktökum, stýri fundum, skrifa fundargerðir og tölvupósta, samræmi áætlaðar framkvæmdir með tengdum aðilum, leita að göllum, áhættu og mögulegum vandamálum sem geta komið upp við hönnun, framkvæmd og rekstur byggingana. Vinnudagurinn krefst mikillar einbeitningar, sérstaklega vegna þess að hann er langur og allt er á norsku. Þá reynist mér vel að borða hollt jafnt og þétt yfir daginn og leysa það sem kemur upp með jafnaðargeði. Góð tónlist, nóg að borða og drekka, heyra aðeins í fjölskyldunni og bros á vör gefur gæfumuninn.

Eins og staðan er í dag þá mun ég brátt vinna styttri vinnudaga í Noregi og vera nær eingöngu í Hå kommune og á Íslandi“.

- Kemur þú til með að fylgja þessu verkefni til loka í apríl 2017?
„Já líklegast, ég mun þá gera það sjálfur og/eða með mönnum frá mér. Ég get unnið þetta meira heimanfrá í framtíðinni og verið mun meira heima. Tíminn og aðstæður á Íslandi verða að leiða það aðeins í ljós en ég vill helst af öllu vera sem mest á Íslandi“.

Verkfræðistofan Efla eru verkfræðihönnuðir að skólanum í Bergen með aðstoð verkfræðistofunar Verkís. Pétur hefur átt mjög góð samskipti við þá og þeir eru færir í sínu fagi að hans sögn.

„Verkfræðistofan Mannvit mun vinna í nýja skólanum í Hå kommune, og vinna þeirra hófst í lok október. Mér lýst vel á samstarfið og góðar íslenskar verkfræðistofur eru að hasla sér völl í Noregi“.



Næsta mál að fá spennandi verkefni á Íslandi

- Eru önnur verkefni þarna sem freista þín? Sérðu fyrir þér að setjast að í Noregi til lengri tíma?
„Ég er með nóg að verkefnum í bili í Noregi. Næsta mál er á fá spennandi verkefni á Íslandi. Við ræddum það í sumar um að flytja til Noregs. Það er hægt að lifa mjög góðu og heilbrigðu fjölskyldulífi í Noregi, vinna í mjög spennandi verkefnum í góðu starfsumhverfi og hafa góðan tíma til að hugsa vel um sig og sína. Góðir framtíðarmöguleikar fyrir alla og í raun rökréttasta valið.

Ég vill hins vegar helst af öllu búa á Íslandi og vinna sem mest á Íslandi og standa mig vel þar, vera með fjölskyldu og vinum, fara í hestaferðir og útilegur. Njóta náttúrunnar. Það er minn draumur og maður á ekki að gefa drauma sína upp á bátinn. Verkefnin geta hins vegar verið í báðum löndum í framtíðinni ef maður vill það og það þarf þá að stilla sjálfan sig og fyrirtækið eftir íslenskum sveiflukenndum aðstæðum“.



Drengirnir hafa forgang í mínu lífi

- Þú hefur verið einn úti án fjölskyldunnar. Hvernig er það?
„Ég vill helst alltaf vera með Birtu og strákunum mínum. Drengirnir mínir eiga að hafa forgang í mínu lífi. Vinnan hefur þó verið ráðandi undanfarin ár. Það var erfitt tímabil fyrir alla, sérstaklega seinasta vetur þegar ég kom mjög sjaldan og lítið heim. Þetta var ekki lífið sem maður ætlaði sér og þurfti í raun að skoða allt lífið upp á nýtt. Sjómenn eru hins vegar vanir þessu og þetta er það sem þeir hafa þurft að gera í áratugi veltandi úti á ballarhafi. Ég sit við skrifborð. Þau voru svo hjá mér í sumar, við gerðum margt skemmtilegt og það var frábært“.
 
- Hvað gerir þú þá í frístundum þínum úti þegar þú ert án fjölskyldunnar?
„Í frístundum fer ég í langa hjólreiða-túra sem er mjög hressandi að fá ferskt loft í lungun, fer í ræktina, í bíó, á kaffihús, og horfi stundum á leiki United í enska boltanum á rólegum pöbb. Ég hvíli mig, safna orku og elda mat. Seint á kvöldin er það svo að horfa á einstaka íslenska sjónvarpsþætti á netinu eins og Landann, fara á netið og heyra í fjölskyldunni gegnum Facetime. Ég er svo að auka tímann aftur í ræktinni núna og ætla að æfa vel í vetur“.

Fátt skemmtilegra en að rækta sinn draumahest

- Ertu ekkert að sakna hestamennskunnar?
„Mér finnst hestamennska frábær íþrótt og útvist ef hún er á skynsömum og heilbrigðum nótum. Hestamennska er mjög gefandi og ég hef átt ógleymanlegar stundir á hestbaki. Ég hef ekki stundað hana nógu mikið undanfarin ár fyrir utan smá hrossarækt. Það er fátt skemmtilegra en að reyna að rækta sinn draumahest, viljugan fallegan fimmgangshest sem getur allt. Hest með rými og bein í nefinu sem gefur manni gæsahúð og getur borið mig alla leið í kaffi til Raufarhafnar. Hrossin mín eru að batna hratt, aðstaðan og félagsskapurinn er frábær á Mánagrund og samverustundirnar verða fleiri með fjölskyldunni og hestunum í framtíðinni,“ segir Pétur Bragason, verkfræðingur úr Garðinum við SUÐUR MEÐ SJÓ.

(Úr blaðinu SUÐUR MEÐ SJÓ sem fylgdi Víkurfréttum 19. desember sl.)

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024