Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 29. júlí 1999 kl. 21:38

LYKLAVÖLD AÐ ORKUBÚI SKÖPUNARINAR

„Hér fallast hugvit og listfengi í faðma, hér fara saman sókn til heilbrigðis og vellíðunar, og atvinnurekstur sem vonandi verður uppspretta arðs og framfara, tekjulind sem vísar veginn að tækifærum nýrra tíma; vin í hrauninu sem segir áhrifaríka sögu um sóknarvilja og hugkvæmni Íslendinga.“ Ný heilsulind Bláa lónsins var formlega vígð af Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands á dögunum að viðstöddum um fimmhundruð gestum. Baðstaðurinn sem kostaði um hálfan milljarð króna hafði verið tekinn í notkun viku fyrr en þennan dag var gamli baðstaðurinn opinn í síðasta sinn. Eftir ávarp forsetans afhjúpaði hann hraunhellu sem táknar upphaf framkvæmda við baðstaðinn. Hellan er hluti af Illahrauni sem umlykur baðstaðinn og rann árið 1226. Eðvarð Júlíusson, stjórnarformaður Bláa lónsins hf. ávarpaði einnig gesti og sagði stuttlega frá sögu framkvæmda. Séra Jóna Kristin Þorvaldsdóttir, prestur í Grindavík blessaði nýja baðstaðinn. Vösk sveit frumkvöðla Ólafur Ragnar Grímsson, forseti færði Suðurnesjamönnum heillaóskir og þakkir þjóðarinnar allrar fyrir framfaravilja og áræðni. „Enn á ný hefur sannast að hér býr vösk sveit frumkvöðla“. Umhverfi nýja baðstaðarins er óvenjulegt og stórbrotið og forsetinn fór skemmtilegum orðum um það í ávarpi sínu: „Grásvart hraunið, auðnin sem í öndverðu var samfellt eldhaf frá bláum fjöllum til fjöruborðs, er vitnisburður um þann sköpunarmátt náttúrunnar sem gert hefur Ísland að einstæðum heimkynnum kraftbirtingar úr iðrum jarðar“, sagði forsetinn og kom næst inn á breytingar á atvinnuháttum Suðurnesjamanna: „Þó fannst Almættinu við hæfi að lyfta þessari hrygglengju við Reykjanes og færa fólkinu sem löngum hefur látið sér nægja að lifa á þorskinum, hrognum hans og lifur - færa því lyklavöld að orkubúi sköpunarinar. Í þessari náðargjöf fólust fyrirheit, möguleikar sem virkja mætti til veruleika. Með framsýni og nýrri hugsun eru orka og afl hér dregin úr iðrum jarðar og umbreytt í drifkraft framfara og atvinnulífs. Síðan er sköpuð ræktunarstöð heilsu og heilbrigðs lífs; sönnun þess að Íslendingar eru staðráðnir í að nýta auðlindir huga og náttúru á þann hátt sem best fellur að vaxtarbrautum nýrrar aldar, hagkerfinu sem á 21. öld mun færa okkur fyrirtæki sem fyrrum hefðu verið talin draumórar og skýjaborgir. Vitni að undraverki Við erum í dag vitni að undraverki. Við sjáum hvernig atorka og einbeitni, máttur samtaka og samvinnu, innsæi og hugvit, hafa fært okkur mannvirki sem eru glæsileg samtvinnan á sköpunarverki náttúrunnar og þörf mannsins fyrir heilbrigði og heilsubót. Við fögnum hér í raun nýju fyrirtæki, glæsilegri og listrænni byggingu og ævintýralegum leik með vatnið í takt við úfið hraun. Hér sannast í verki að aðstandendur og framkvæmdaaðilar hafa skilið að við Íslendingar búum í breyttum heimi. Ný viðhorf um veröld alla gera nú greinar sem áður voru taldar útgjaldabyrði að lyftistöng við að efla þjóðartekjur og gjaldeyrissköpun. Hin nýja heilsulind Bláa lónsins er mikið fagnaðarefni og einnig áminning um að ganga nú rösklega til verks við að beita nýrri hugsun til að sjá og virkja auðlindirnar sem felast í óbyggðum Íslands og úfinni náttúru í góðri sátt við umhverfi og aðstæður. Náttúran, ótæmandi sköpunarkraftur hennar kemur okkur sífellt á óvart og sama gildir um hugaraflið sem engin takmörk eru sett. Ný ásjóna Forsetinn sagði að það yrði gaman að koma með góða gesti og sýna þeim þá nýju ásjónu landsins okkar sem hér hefur verið mótuð, mörkuð dráttum úr sköpunarverki náttúrunnar, eldinum úr iðrum jarðar. „Hér fallast hugvit og listfengi í faðma, hér fara saman sókn til heilbrigðis og vellíðunar, og atvinnurekstur sem vonandi verður uppspretta arðs og framfara, tekjulind sem vísar veginn að tækifærum nýrra tíma; vin í hrauninu sem segir áhrifaríka sögu um sóknarvilja og hugkvæmni Íslendinga.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024