Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Lykillinn er almenn þátttaka bæjarbúa
    Frá árgangagöngunni.
  • Lykillinn er almenn þátttaka bæjarbúa
    Ásmundur Friðriksson.
Föstudagur 5. september 2014 kl. 09:00

Lykillinn er almenn þátttaka bæjarbúa

Þingmaður hefur fjórum sinnum komið að undirbúningi Ljósanætur.

„Ég var fenginn til að sjá um hátíðina 2006 í þrjá mánuði og það varð að þremur árum. Var með ákveðna hugmyndir um hvernig við myndum breyta hátíðinni, sem miðaðist áður eingöngu við laugardaginn. Mínar tillögur voru að efla fimmtudag, föstudag og sunnudag,“ segir Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, en árið 2006 var hann ráðinn í þrjá mánuði til þess að stýra Ljósanæturhátíðinni en endaði með því að starfa í þrjú ár.

Öflugt og gott fólk lagði lið
Ásmundur segist hafa verið með skemmtilegt og gott fólk með sér í öllum undirbúningi og nefnir í því sambandi Valgerði Guðmundsdóttur, Steinþór Jónsson, Dagnýju Gísladóttur og Guðlaug Sigurjónsson. „Einnig var mikilvægt í þessu ferli hversu öflugir starfsmenn þjónustuvers Reykjanesbæjar voru og lögðu sig mikið fram. Einnig voru fulltrúar Miðbæjarsamtakanna, Kristín í Kóda og Lilja í Cabo, mikilvægar í að virkja verslanir og þjónustuaðila til þátttöku. Geirmundur Kristinsson og Sparisjóðurinn áttu sinn stóra þátt í að hjálpa okkur við að láta hlutina verða að veruleika,“ segir Ásmundur og bætir við að í raun hafi Ljósanóttin tekið nokkur skref upp á við í einu stökki.

Mikilvægt að flagga um bæinn
Ein af áherslum Ásmundar var hvatning til íbúa Reykjanesbæjar um að flagga á föstudagsmorgni til þess að tengja umgjörðina við íbúana sjálfa. „Það var svona til þess að fólk áttaði á sig þegar það fór um bæinn að hátíðin væri hafin. Síðan kom Maggi Jóns með hugmyndina að árgangagöngunni árið 2007 og sú hugmynd steinlá og er orðin eitt af aðalnúmerum hátíðarinnar. Einnig byrjuðum við á þessu með súpuna niðri í bæ og fengum Axel Jóns með okkur. Það var gert til að minnast Ástu Olsen, sem bjó í Fishershúsi. Sem ung kona hafði hún stutt við bakið á ungum börnum í kringum jólin og gefið þeim að borða. Þetta er enn í gangi og góður siður,“ segir Ásmundur.

Hátíðin aldrei meiri en fólkið
Þá var einnig farið út í að hafa stórt útisvið, ljósabúnað og hljóðkerfi. Við fórum líka út í það 2006 að fá svið, ljósbúnað og hljóðkerfi. „Við breyttum umgjörðinni og það tókst okkur með stuðningi frá fjölmörgum fyrirtækjum. Svona hátíðir verða þó aldrei meiri en fólkið sjálft og við vildum auka almenna þátttöku. Í framtíðinni verður lykillinn almenn þátttaka bæjarbúa. Ég var í þjóðhátíðarnefnd í Vestmannaeyjum í mörg ár og sú hátíð hefur verið haldin í 140 ár. Þar sjá fjölskyldur um ýmsa þætti maður fram af manni. Ef fram heldur sem horfir þá verður Ljósanótt vonandi svipuð. Það er það sem mun gera hana svo mikilvæga fyrir fjölskyldurnar,“ segir Ásmundur.

Veðrið alltaf gott í hjartanu
Ásmundur á frænku sem búið hefur í Keflavík í 75 ár. „Þegar Ljósanótt byrjaði fór hún að sjá ættingja sem hún hafði ekki séð í áratugi. Það sem er mikilvægast er að hún tengir saman fjölskyldurnar og kynslóðirnar. Mér finnst að aðkoma mín, þeirra sem voru á undan mér og þeim sem hafa komið á eftir, hafi sameinast í því sem hefur skilað því að Ljósanótt hefur þróast eins og núna og er styrk og sterk hátíð,“ segir Ásmundur, sem sjálfur verður með árlegt heimboð fyrir sitt fólk sem býr víða um land en mun sameinast heima hjá honum. Hann kvíður ekki veðurspánni og segir að lokum: „Sama hvernig viðrar, ef Ljósanótt er í hjartanu þá er veðrið gott.“

VF/Olga Björt

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024