Lykillinn að hafa gott starfsfólk
- Rafverkstæði I.B. fagnaði 50 ára afmæli á dögunum.
Rafverkstæði I.B. í Njarðvík fagnaði á dögunum hálfrar aldar afmæli sínu. Fyrirtækið var stofnað af Ingólfi Bárðarsyni, rafvirkjameistara, árið 1965. Hann féll frá fyrir fjórum árum og tóku tvö barna hans þá við rekstrinum, þau Guðmundur Þórir og Ragnhildur Helga Ingólfsbörn, en móðir þeirra er meirihlutaeigandi í dag. Þau höfðu áður starfað þar með hléum og með öðrum störfum frá 18 ára aldri.
Ingólfur greindist með krabbamein árið 2011 og lést svo þremur mánuðum síðar. Hann hefði orðið 78 ára þann 9. október síðastliðinn og því völdu þau þann dag til að halda hátíðlega upp á afmæli fyrirtækisins. „Eftir að hann dó upplifðum við hve víða hann hafði látið til sín taka, það var miklu víðar en við höfðum áður gert okkur grein fyrir,“ segir Ragnhildur.
Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki nái því afreki að starfa óslitið í hálfa öld og segja systkinin að róðurinn hafi stundum verið þungur en að með útsjónarsemi og dugnaði hafi föður þeirra tekist að halda rekstrinum úti allan þennan tíma. Við stofnun var fyrirtækið skráð á kennitölu Ingólfs og fékk svo fyrirtækjakennitölu og ehf. skráningu árið 1998 þegar slíkt kom til sögunnar. „Hrunið tók sinn toll en við ákváðum ásamt móður okkar að sigla í þann erfiða tíma og horfum bjartsýn til framtíðar. Í gegnum tíðina var pabbi alltaf á tánum varðandi öflun verkefna og passaði vel að setja ekki öll eggin í sömu körfuna og það skipti sköpum,“ segir Guðmundur. „Hann var mjög hagsýnn og nýtinn. Yfirbyggingin hefur alltaf verið lítil og það örlaði aldrei á neinni mikilmennsku,“ segir Ragnhildur. Þau segja uppskriftina að farsælum rekstri í hálfa öld þó fyrst og fremst felast í því að hafa haft gott starfsfólk.
Öll fjölskyldan hefur tekið þátt
Ragnhildur fæddist sama ár og pabbi hennar stofnaði verkstæðið og hefur hún því tekið þátt í rekstrinum með ýmsum hætti frá unga aldri. Systkinin eru fimm talsins og hjá fjölskyldunni var verkaskiptingin í þeim anda er tíðkaðist á þeim tíma. Fyrstu árin eftir að fyrirtækið var stofnað sinnti móðir þeirra, Halldóra Jóna Guðmundsdóttir, heimilinu. „Það var ekki fyrr en síðar að ég áttaði mig á því hve stóran hlut mamma á í því hve vel rafverkstæðið gekk. Pabbi hefði ekki getað sinnt vinnunni og áhugamálum eins vel og hann gerði nema fyrir dugnað mömmu heima fyrir. Eftir að pabbi lést snérum við Guðmundur bökum saman og sjáum um reksturinn saman,“ segir Ragnhildur.
Systkinin eru fimm og hafa þrjú þeirra starfað hjá fjölskyldufyrirtækinu um lengri og skemmri tíma og börn þeirra sum hver líka. Guðmundur er rafvirkjameistari og hefur lokið námi í rafmagnsiðnfræði frá Odense Tekniske skole. Hann hefur unnið hjá fjölskyldufyrirtækinu meira og minna frá 18 ára aldri. „Pabbi lagði þó mikið upp úr því að ég myndi prufa aðra vinnu sem ég gerði en endaði svo hér í rafmagninu sem ég sé ekki eftir í dag,“ segir Guðmundur. Ragnhildur bætir við að þær systurnar hafi ekki verið hvattar sérstaklega til þess að verða rafvirkjar. Elsti bróðirinn í hópnum, Arnar Ingólfsson, starfaði lengi með pabba sínum en stýrir nú útibúi Verkfræðistofu Eflu á Suðurnesjum.
Byrjaði í skúrnum
Rafverkstæðið var fyrst til húsa í bílskúrnum við heimili fjölskyldunnar að Hlíðarvegi 19 í Njarðvík og flutti svo að Bolafæti 11 og síðar að Bolafæti 3. Árið 1998 flutti starfsemin svo á Fitjabakka þar sem hún er enn. Fjölmargir rafvirkjar, lærlingar og verkamenn hafa starfað hjá fyrirtækinu í gegnum árin. Ásmundur Jónsson rafvirki var fyrsti lærlingurinn sem kom til starfa og svo skemmtilega vill til að hann starfar þar í dag. Ásmundur kom fyrst til starfa hjá Ingólfi árið 1967 og stofnaði síðar sitt eigið fyrirtæki. Árið 2003 kom hann aftur á gamla vinnustaðinn. Ásmundur er nú 69 ára og segir Ragnhildur fólk sem komið er á efri ár vera einkar dýrmæta starfskrafta. „Það er nauðsynlegt fyrir unga fólkið að fá tækifæri til að vinna með eldra fólki. Mér finnst það vanta svolítið í íslenskt atvinnulíf þar sem miðað er við að fólk sé 67 ára þegar það fer á eftirlaun.“ Þau segja að pabbi þeirra hafi alltaf viljað gefa fólki tækifæri og ráðið menn með misjafna reynslu til vinnu og leyft þeim að sanna sig.
Nú starfa sjö til níu faglærðir rafvirkjar hjá fyrirtækinu en þegar mest var á árunum fyrir hrun voru þeir nítján. Á þeim tíma skilaði fyrirtækið af sér rafmagnsvinnu við hundrað íbúðir á ári. Þau segja að Hljómahöllin hafi verið mjög krefjandi verkefni sem fyrirtækið er mjög ánægt með.
Rafvirkjar að koma til baka frá Noregi
Ragnhildur og Guðmundur eru sammála því að nokkur breyting sé á byggingamarkaði nú og því bjartir tímar framundan. Þau telja að á næstunni fari að vanta rafvirkja á Íslandi, bæði vegna þess að margir fluttu til Noregs eftir hrun og færri hafa útskrifast úr námi. Margir eru þó komnir til baka frá Noregi en hafa leitað í önnur störf en hefðbundna rafvirkjavinnu sem þau segja miður. Þau systkinin eru sammála um að rafvirkjun sé enn í dag karlafag og að gaman væri ef fleiri konur myndu prufa enda geti starfið hentað báðum kynjum. „Við hvetum alla til að fara í rafvirkjanám, jafnt stelpur sem stráka. Þetta er mjög skemmtilegt starf sem krefst þess að fólk sýni útsjónarsemi, sé lunkið að leita að bilunum og sinna ýmsum ólíkum verkefnum og beita rökhugsun,“ segir Guðmundur.
Í tilefni af afmælinu var heimasíða fyrirtækisins opnuð, www.rafib.is. Guðmundur segir verkefnastöðu fyrirtækisins í dag góða og því líti þau björtum augum til framtíðar.
Í 50 ára afmæli Rafverkstæðis I.B. á dögunum. Elvar Ö. Brynjólfsson, Guðmundur H. Hallsson, Birgir Ólafsson, Anton H. Pálsson og Eyþór R. Þórarinsson.
Meðal gesta í 50 ára afmælinu voru Theodór Kjartansson, Hörður Sanders og Einar Guðmundsson.
Fjögur systkinanna ásamt móður sinni. Frá vinstri Arnar Ingólfsson, Ragnhildur Helga Ingólfsdóttir, Halldóra Jóna Guðmundsdóttir, Brynja Ingólfsdóttir og Guðmundur Þ. Ingólfsson.