Lúxussnekkja milljarðamærings í Keflavík
Lúxussnekkja rússneska milljarðamæringsins Andrey Melnichencko er nú í Keflavík. Fley hans minnir meira á kafbát en lúxussnekkju og kostaði smíði hennar um 36 milljarða króna.
Í snekkjunni sem ber nafnið „A“ er m.a. sprengjuhelt gler, þrjár sundlaugar, þrír hraðbátar en tvær 11 þús. hestafla vélar knýja hana áfram. Til samanburðar eru aðalvélar í nýjasta varðskipi Íslendinga, Þór, 6 þús. hestöfl hvor.
Hönnuðir snekkjunnar eru Philippe Starck og Martin Francis. Starck hefur hannað allt frá mótorhjólum til hótela. Má þar nefna Sanderson hótelið í Lundúnum.
Heimsókn snekkunnar til Keflavíkur hefur vakið athygli í morgun, m.a. þegar einn þriggja hraðbáta hennar kom í land. Ekki er vitað um hagi eigandans. Einhver giskaði á að hann hefði skellt sér í Bláa Lónið. Kannski hefur hann bara viljað fara rúnt í bítlabænum eða út á Reykjanes?