Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Lúmsk eftirköst heilahristings
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 8. október 2023 kl. 10:04

Lúmsk eftirköst heilahristings

Heilahristingur var kveikjan að Heilaheilsu. Umræða um heilahristing í Bandaríkjunum ýkt.

„Það er í raun ekki endilega heilahristingurinn sjálfur sem er hættulegur, heldur röng viðbrögð eftir að hafa fengið heilahristing,“ segir dr. Ólína Viðarsdóttir sem ákvað að stofna fyrirtækið Heilaheilsu sem sérhæfir sig m.a. í þjónustu við einkennum heilahristings. Hún lenti sjálf í að fá heilahristing í fótboltaleik en Ólína lék 70 landsleiki í fótbolta og lék um tíma í Svíþjóð og Englandi sem atvinnumaður.

„Ég ólst upp í Grindavík, kláraði grunnskólann þar og fór svo í eitt og hálft ár í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ég æfði og spilaði fótbolta með Grindavík og bauðst að fara til Bandaríkjanna á háskólastyrk árið 2001. Ég lærði sálfræði, var fyrstu tvö árin í Central Michigan og kláraði svo frá Richmond. Ég kom heim eftir námið, skipti þá yfir í Breiðablik og lék með þeim og fór í meistaranám í sálfræði við Háskóla Íslands. Eftir nokkur ár heima bauðst mér að gerast atvinnumaður í knattspyrnu í Svíþjóð og lék með Örebro í sænsku úrvalsdeildinni. Eftir rúmlega ár fór mér að leiðast og vildi vinna samhliða og fór að vinna sem sálfræðingur í Svíþjóð ásamt því að spila fótbolta. Í heildina vorum við fjölskyldan um fimm ár úti, tókum stutt stopp í Englandi þar sem ég og konan mín spiluðum með Chelsea, og komum svo heim árið 2013. Þá byrjaði ég að vinna sem sálfræðingur á Landspítalanum og hóf síðan doktorsnám við HÍ. Á árunum 2013 til 2017 spilaði ég fótbolta með þremur liðum hér heima, Val, Fylki og KR.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Ólína með Grindavíkurliðinu á síðustu öld.

Á þessum tíma var ég farin að skoða heilaþjálfun og vitræna endurhæfingu fyrir fólk með geðraskanir. Ég var að innleiða þannig meðferðir og skoða hugarstarfið, athygli, einbeitingu og minni. Á sama tíma og ég var í þessu doktorsnámi var ég að spila fótbolta á fullu og lenti í að fá heilahristing. Þetta gerðist í leik, ég kláraði hann og hélt svo áfram að æfa eins og ekkert hefði í skorist. Spilaði tvo leiki í viðbót og lenti þá aftur í að fá höfuðhögg, ekki eins harkalegt og í fyrra skiptið en fékk aftur heilahristing, hugsanlega og líklega var ég ekki búin að jafna mig nægjanlega vel eftir fyrra skiptið. Ég fékk mikil einkenni eftir þetta, þarna lauk knattspyrnuferlinum og ég þurfti að fá veikindaleyfi frá vinnu í einhvern tíma. Ég myndi segja að ég hafi verið um tvö ár að jafna mig alfarið eftir þetta.“

Ólína fór að reyna lesa sér til um hvað hægt væri að gera til að jafna sig af heilahristingi en fann lítið og þar sem hún var á kafi í doktorsnáminu á þessum tíma kviknaði áhugi hennar á að einbeita sér að úrræðum sem grípur fólk sem hefur fengið heilahristing og úr varð að hún stofnaði fyrirtækið Heilaheilsu árið 2021. „Ég sökkti mér af fullum þunga ofan í pælingar um heilahristing og meðferð eftir heilahristing og sótti m.a. námskeið til Kanada. Ég er með góðan grunn í námi, var m.a. að rannsaka áhrif geðheilsu á hugarstarf í doktorsnámi mínu, svo það hefur gengið vel að tileinka mér vísindi tengd heilastarfseminni. Fyrirtækið hefur gengið vel en Heilaheilsa veitir faglega og trausta þjónustu þar sem áhersla er lögð á að efla heilaheilsu og að bæta líðan. Við bjóðum upp á sérhæfða þjónustu við einkennum heilahristings, sálfræðimeðferð, líkamsþjálfun, námskeið og þjónustu við fyrirtæki, fagaðila og stofnanir. Markmið okkar er að efla þjónustu við þá sem glíma við einkenni heilahristings. Þessa þjónustu vantaði hér á landi,“ segir Ólína.

Fyrstu viðbrögð mikilvæg

Flestir fá heilahristing einhvern tíman á lífsleiðinni og í um 60 til 70% tilfella jafnar fólk sig hratt og örugglega án nokkurs inngrips. Hins vegar er stór hópur sem glímir við langvarandi einkenni og viðvarandi heilsubresti eftir heilahristing eins og Ólína fékk sjálf að reyna á eigin skinni. „Það er mikilvægt að greina vandann strax í upphafi eftir að fólk hefur fengið heilahristing. Fyrstu viðbrögð eru mjög mikilvæg, að fara ekki of geyst af stað og passa sig mjög vel fyrstu dagana, sérstaklega að fá ekki aftur heilahristing. Það þarf líka að passa sig á að gera ekki of lítið því heilinn þarf blóðflæði og því er hreyfing nauðsynleg í bataferlinu. Oft þarf að fara í sjúkraþjálfun til að meðhöndla hálsáverka eftir höfuðhögg, það þarf að vinna með sjónskynjun, taugakerfið, draga úr bólgum og í raun mjög margt sem þarf að gera. Hingað til hefur verið flókið fyrir einstaklinga að ná sér í nauðsynlega þjónustu því þetta er svo margþætt en við hjá Heilaheilsu höldum vel utan um allt ferlið. Við greinum vandann, veitum meðferð og beinum fólki í réttan farveg. Birtingarmynd einkenna er svo ólík eftir heilahristing, það sem hrjáir einn einstakling er kannski eitthvað allt annað en það sem sá næsti finnur. Sem betur fer jafna flestir sig á nokkrum vikum en sumir geta þurft mun lengri tíma. Það er í raun ekki heilahristingurinn sjálfur sem er hættulegur, heldur röng viðbrögð strax á eftir, röng greining og ófullnægjandi meðferð sem getur gert bataferlið langt og erfitt.“

Ólína heyrir daglega sögur fólks sem hafði lent í að fá heilahristing fyrir kannski tuttugu árum en af því að fyrstu viðbrögðin voru ekki rétt lenti fólk í keðjuverkandi vanda. „Það eru ýmis óljós einkenni sem komu fram án þess að fólk áttaði sig á því. Heilinn sjálfur jafnar sig eftir heilahristing því hann er stjórnstöðin og tilgangur hans er að samhæfa öll kerfi líkamans. Þegar áverki, s.s. heilahristingur, kemur á stjórnstöðina er algengt að truflun komi fram í öðrum kerfum líkamans, allt frá ofurnæmu taugakerfi til bólgumyndunar, blóðflæðivanda, hormónabreytinga, jafnvel þunglyndis svo dæmi sé tekið.

Ég mæli hiklaust með því að þeir sem hafa upplifað heilahristing, jafnvel fyrir mörgum árum síðan og eru óvissir hvort þeir geti verið að glíma við eftirköst heilahristings, fari á vefsíðuna hjá okkur og nái sér í netnámskeiðið „Allt um heilahristing“. Þar útskýri ég á mannamáli hvað gerist í heilanum eftir heilahristing, þá truflun sem önnur kerfi líkamans verða fyrir og hvað hægt er að gera. Mörgum finnst eins og þeir hafi hlustað á ævisöguna sína eftir að hafa horft á þessa fyrirlestra hjá okkur, þeir ná að spegla sig í mörgu af því sem þar kemur fram. Það kemur líka fram í þessum fyrirlestrum hvað sé hægt að gera, það eru meðferðir við öllu. Vandinn hefur bara verið sá að fólk áttaði sig ekki á hvað var að hrjá það og hver orsökin var, þá er auðvitað erfitt, jafnvel ómögulegt, að finna lausn á vandanum,“ segir Ólína.

Ýkt umræða um skaðsemi heilahristings

Umræða um afleiðingar endurtekna höfuðhögga hefur verið hávær síðustu ár, sérstaklega í  Bandaríkjunum. Sú umræða varð háværari eftir að myndin Concussion kom út sem fjallar um fyrstu greiningar á heilahrörnunarsjúkdóminum Chronic Traumatic Encephalaphathy (CTE) í heila látinna leikmanna úr ameríska fótboltanum og baráttu vísindamanna við NFL-deildina þar úti. Umræðan er af hinu góða segir Ólína þar sem hún vekur athygli á mikilvægu málefni en er þó orðin nokkuð ýkt. „Þetta er mikið hitamál í Bandaríkjunum og í raun er þetta komið úr því að það mætti ekki tala um heilahristing, yfir í að hann sé hættulegur og allir fái heilabilun ef þeir fá heilahristing. Umræðan er því orðin svolítið ýkt í hina áttina, það hefur verið mikill hræðsluáróður í fjölmiðlum í kringum heilahristing en niðurstöður rannsókna eru ekki svona afgerandi, þ.e. þær eru ekki að sýna þessi beinu orsakatengsl milli höfuðhögga og CTE. Ólína segir að það þurfi að róa umræðuna og túlka niðurstöður rannsókna af meiri varkárni.

Það eru möguleg tengsl á milli tíðni höfuðhögga og CTE hjá hluta atvinnumanna í amerískum fótbolta en þýðið í þessum rannsóknum er lítið og ekki valið af handahófi. Því er erfitt að yfirfæra niðurstöður yfir á alla þá sem ekki eru atvinnumenn í amerískum fótbolta. Það er líka vert að benda á að ekki er hægt að greina þennan sjúkdóm fyrr en einstaklingurinn er látinn. Það var mikilvægt að umræðan varð til, þá voru meiri peningar settir í rannsóknir á afleiðingum höfuðhögga, réttum viðbrögðum og mögulegum úrræðum. Úrræði eins og Heilaheilsa hafa síðan þá sprottið upp víða um heim, sérstaklega í Bandaríkjunum og Kanada – en eins og ég segi, umræðan er orðin of ýkt og fólk telur sig í hættu ef það fær heilahristing, er jafnvel hætt að þora að hreyfa sig eða er hikandi við að setja börnin sín í íþróttir þar sem hætta er á höfuðhöggi. Það þarf að róa umræðuna, greina rétt frá rannsóknarniðurstöðum, og þurfa fjölmiðlar að taka meiri ábyrgð þar.

Mér finnst mikilvægt að fólk viti að ef viðbrögðin eru rétt eftir heilahristing jafna flestir sig hratt og örugglega á þremur til fjórum vikum. Hins vegar eru allt að 30 til 40% með einhver einkenni eftir þann tíma og þá skiptir öllu máli að komast sem fyrst í rétta greiningu og meðferð,“ sagði Ólína að lokum.

Ólína með eiginkonu sinni, Eddu Garðarsdóttur, og börnunum Bergþóru og Viðari.