Lúðrasveitatónleikar í Kirkjulundi
Lúðrasveitir tónlistarskólans í Reykjanesbæ, A, B og C sveitir, halda vortónleika sína í Kirkjulundi föstudaginn 27. maí kl.19.30.
A- sveitin er yngsta lúðrasveitin og hún er skipuð nemendum sem hófu hljóðfæranám á þessu skólaári. Hún hefur starfað síðan í febrúar, eða í 3-4 mánuði. Mið sveitin (B) hefur starfað af krafti í vetur og m.a. tekið þátt í árlegum lúðrasveitadegi yngri sveita af Suðurnesjum og af höfuðborgarsvæðinu, sem haldinn er árlega í Vogum á Vatnsleysuströnd. Auk þess tók B- sveitin að sér að leika í hátíðarskrúðgöngu í Reykjanesbæ á Sumardaginn fyrsta og tókst það með miklum sóma.
Elsta sveitin (C) er nýkomin heim úr tónleikaferðalagi til Washington DC. Ferðin gekk sérlega vel og stóð lúðrasveitin sig afbragðsvel í ferðinni. Eflaust mun eitthvað af tónlistinni sem þar var leikin, prýða efnisskrá kvöldsins.
Mikil gróska er í lúðrasveitastarfi skólans og hér eru á ferðinni duglegir nemendur. Metnaðurinn er mikill og einkennir hann efnisskrár sveitanna. Efnisskrá tónleikanna verður mjög fjölbreytt og m.a. mun C- sveitin flytja einleiksverk fyrir bariton-horn og blásarasveit. Einleikari verður Harpa Jóhannsdóttir. Það eru allir hjartanlega velkomnir á tónleikana og eru Suðurnesjamenn eindregið hvattir til að mæta.