Lúðrasveitartónleikar og píanókonsert
Lúðrasveit verkalýðsins heldur tónleika í Stapa, Hljómahöll, næstkomandi sunnudag, þann 21. apríl, kl.16:00. Þessir tónleikar eru afrakstur ánægjulegs samstarfs Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Lúðrasveitar verkalýðsins undanfarna mánuði. Þema tónleikanna er tónlist eftir bandaríska tónskáldið Georg Gershwin.
Jakob Piotr Grybos, nemandi við skólann, verður einleikari í píanókonsertinum Rhapsody in Blue eftir Georg Gershwin. Einleikshlutverk píanósins er mjög viðamikið eins og venja er með einleikskonserta og ber verkið uppi.
Það er frábært tækifæri og reynsla fyrir nemendur að fá að spreyta sig í einleikshlutverki með hljómsveit, svo ekki sé nú talað um einleik með einni glæsilegustu lúðrasveit landsins.
Stjórnandi Lúðrasveitar verkalýðsins er Karen J. Sturlaugsson, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans.
Það er rétt að geta þess að píanókonsertinn Rhapsody in Blue er mjög sjaldan fluttur hérlendis svo hér er um einstakt tækifæri að ræða.
Aðgangur er ókeypis og allir innilega velkomnir. Gengið er inn um anddyri Stapa.
Íbúar Reykjanesbæjar og aðrir Suðurnesjamenn eru eindregið hvattir til að fjölmenna á tónleikana.