Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Löngu hætt að stressa mig á að vera búin að öllu
Mánudagur 24. desember 2018 kl. 07:00

Löngu hætt að stressa mig á að vera búin að öllu

Kolbrún Jóna Pétursdóttir er löngu hætt að stressa sig á því að vera búin að öllu fyrir einhvern ákveðinn tíma fyrir jól því þetta hefst allt segir hún. Á Þorláksmessu býður hún og Torfi maður hennar í fisk og franskar.

Ertu mikið jólabarn?
Nei, ég get ekki sagt það. Mér finnst gaman að vera með fólkinu mínu á þessum tíma en reyni nú bara að láta allt hafa sinn vanagang. Ég vil bara njóta hversdagsins og lífga upp á mesta skammdegið með því að kveikja á kertum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað er uppáhalds jólalagið þitt?
Jólalag eða ekki… Dansaðu vindur með Eivöru.

Hvernig eru þín jólagjafainnkaup?
Ég er búin að kaupa nokkrar sem ég hlakka mikið til að gefa. Ég gef auðvitað fjölskyldunni minni gjafir og svo er ég svo heppin að eiga nokkrar vinkonur og erum við enn að gefa hver annarri gjafir á jólum, hefð sem mér þykir mjög vænt um.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?
Stundum á síðustu stundu en engin regla á því. Ég er allavega löngu hætt að stressa mig á að vera búin að öllu eða einhverju fyrir einhvern ákveðinn tíma fyrir jól. Þetta hefst allt.

Áttu einhverja sérstaka minningu frá jólum?
Ég á margar góðar minningar frá jólum og þá sérstaklega öll jólin sem við fórum saman til ömmu og afa á Melteig 8 og hittumst þar Blakkarar. Sakna þeirra stunda.

Hvað er ómissandi á jólum?
Steikta hvítkálið hennar mömmu með jólamatnum.

Hvað finnst þér skemmtilegast um jólahátíðina?
Núna er það að fylgjast með barnabarninu, Hrafni Orra hlakka til jólanna. Hann spáir í jólasveinum og hlakkar til að fá að taka upp pakkana. Hann er hræddur við Grýlu og finnst hún ekki falleg eins og ömmur hans.

Bakar þú smákökur fyrir jólin?
Nei, ég er hætt því enda borðaði ég það bara allt sjálf, planið er að gera sörur og eina lagköku.

Hvenær setjið þið upp jólatré?
Bara þegar við erum í stuði. Stefni á að gera það núna um helgina en við örverpið erum löngu búnar að skreyta annað.

Ertu með einhverjar fastar hefðir um jólin?
Við höfum boðið nokkrum vinum í djúpsteiktan fisk á Þorláksmessu, þá fer eiginmaðurinn í bílskúrinn og djúpsteikir splunkunýjan fisk og franskar. Það er ágætis hefð til að fá að hitta fjölskylduna og vinina fyrir jólin. Þeir sem ekki fara í skötu hafa komið til okkar. Þetta er okkar „skata“ á Þorláksmessu. Ég nota tækifærið hér með og býð til veislu.

Hvenær eru jólin komin hjá þér?
Það er þegar klukkan í útvarpinu hringir inn jólin klukkan 18 á aðfangadag og við setjumst öll við borðið.

Hvar ætlar þú að verja aðfangadegi?
Ég og mín fjölskylda ætlum að vera hjá foreldrum mínum á aðfangadag eins og ég hef gert allt mitt líf og Torfi maðurinn minn í 35 ár. Það er nú þannig að börnin mín vilja helst vera þar og við svo heppin að mamma nennir ennþá að hafa okkur öll. Ég reyndi einu sinni að breyta þessu og það var megn óánægja með það svo ég bara þigg að vera í mat hjá mömmu og pabba.

Hvað verður í matinn á aðfangadag?
Mamma stjanar við okkur og hefur bæði reyktan lambahrygg og svínahamborgarahrygg, ég er ekki hrifin af svínakjöti og vil frekar lambið.

Eftirminnilegasta jólagjöfin?
Ég hugsa um eina sérstaklega í hvert sinn er ég ríf upp Kitchen Aid hrærivélina mína sem tengdaforeldrar mínir gáfu MÉR í jólagjöf árið sem við Torfi byrjuðum að búa. Tengdamömmu fannst ég þurfa að eiga slíkan grip svo ég gæti bakað ofan í prinsinn hennar.