Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokasýning Vodkakúrsins á morgun
Fimmtudagur 23. september 2004 kl. 10:40

Lokasýning Vodkakúrsins á morgun

Á morgun verður leikritið Vodkakúrinn eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur og í leikstjórn Gunnars Inga Gunnarssonar sýnt í síðasta sinn í Frumleikhúsinu áður en sýningar verða fluttar til Reykjavíkur. Fyrirhugað var að ljúka sýningum um síðustu helgi en sökum mikillar aðsóknar og góðra viðbragða var sýningum bætt við.

Blaðamaður Víkurfrétta varð þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá leikritið um síðustu helgi og var hæstánægður eins og allir aðrir í þéttsetnum salnum. Leikritið fjallar um Eyju, unga konu sem hefur áhyggjur af aukakílóunum og hefur reynt flesta eða alla megrunarkúra sem komið hafa fram, án árangurs. Eyja, sem er leikin af Helgu Brögu Jónsdóttur, leitar ráða hjá fólkinu í lífi sínu, en þar á meðal eru mjóa systir hennar, lævís Herbalife sölumaður, einkaþjálfarinn og kærastinn, sem virðist hugfangnari af vörubílum og gröfum en Eyju.

Helga Braga fer á kostum í aðalhlutverkinu og skilar hlutverki Eyju snilldarlega. Steinn Ármann Magnússon leikur allar aukapersónurnar og gerir það með miklum tilþrifum eins og honum er einum lagið. Leikritið er þörf áminning á þessum tímum skyndilausna og veltir upp mörgum áleitnum spurningum og gátu eflaust flestir samsamað sig við raunir Eyju. Áhorfendur hlógu dátt alla sýninguna og  yfirgáfu leikhúsið með bros á vör eftir að hafa þakkað fyrir skemmtunina með dynjandi lófaklappi.

Kristlaug ,sem er uppalin í Keflavík, sagði í samtali við Víkurfréttir að sérlega gaman hafi verið að sýna verkið í sínum heimabæ. „Það er líka svo gaman að vera í Frumleikhúsinu. Leikararnir eru mjög hrifin af þessu því nálægðin við áhorfendur er svo miklu meiri en í stærri leikhúsum.“

Sýningin á morgun hefst kl. 20.

VF-mynd/Héðinn Eiríksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024