Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Lokaorð Sævars Sævarssonar: Jólasveinarnir
Miðvikudagur 7. desember 2016 kl. 06:00

Lokaorð Sævars Sævarssonar: Jólasveinarnir

Hún hefur verið yndisleg hangiketslyktin sem borist hefur yfir Reykjanesbæ undanfarna daga og vikur. Lyktin minnir á jólin og þar sem senn líður að jólum mætti ætla að lyktin kæmi frá veitingamönnum hér í bæ sem eru að matreiða fyrir jólahlaðborðin eða óvenju stundvísum bæjarbúum. Því fer þó fjarri. Ástæðan er gangsetning fyrsta ofnsins í öðru kísilverinu í Helguvík, þess minna af tveimur og fyrsta ofninum af samtals átta sem þessi kísilver munu starfrækja. Það verður sannarlega glæsilegt svæðið sem blasa mun við ferðamönnum þeim er hingað leggja leið sína á skemmtiferðaskipunum sem hugmyndin er að muni koma inn í Helguvík í framtíðinni. Tvö kísilver, eitt álver og ein sorpeyðingarstöð. Til að toppa fegurðina gefur svo að líta kirkjugarð skattgreiðendanna sem hætta vildu við herlegheitin en fengu ekki vilja sínum framgengt. Miðað við fjölda mengandi verksmiðja, stærð þeirra og umfang er ljóst að þrátt fyrir að máltækið segi að „það séu ekki alltaf jólin“, verður staðan önnur í Reykjanesbæ í framtíðinni. Hér verða alltaf jólin, að minnsta kosti í norðanátt...

Talandi um jól. Öll höfum við heyrt sögurnar af jólasveinunum þrettán sem búa í foreldrahelli ásamt Grýlu og Leppalúða en halda til byggða um jólin til að færa börnum gjafir í skóinn. Nútíma jólasveinarnir eru að mestu leyti góðhjartaðir. Í gamla daga voru jólasveinarnir hins vegar ekki sömu gæðablóðin. Talað var um að þeir væru af tröllakyni og ekki bar hegðun þeirra merki um umhyggju heldur þvert á móti. Voru þeir notaðir til að hræða börn dagana fyrir jól enda þjófóttir, hrekkjóttir og illir að eðlisfari. En hvert er ég að fara með þessu? Jú, það kann nefnilega að vera að börnum framtíðarinnar verði sagðar sögur af sams konar jólasveinum. Á næstu vikum kemur hins vegar í ljós hvort það verði sögur af jólasveinum sem samþykktu og viðhéldu stóriðjustefnu Reykjanesbæjar eða hvort það verði sögur af hinum góðhjörtuðu jólasveinum sem á endanum höfðu hag íbúa og barnanna þeirra að leiðarljósi og yfirgáfu helli Grýlu og Leppalúða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú er tíminn til að fylkja sér á bak við bæjarfulltrúa- og ráðamenn Reykjanesbæjar, sama hvaða flokk þeir skipa, og finna leiðir til að vinda ofan af þessum stóriðjumistökum. Þó að ákvarðanir hafi verið teknar og samningar undirritaðir er eina rétta í stöðunni að stoppa þetta. Auðvitað eru sterk rök fyrir því að ekki sé hægt að stoppa á þessu stigi. Það er þó mitt mat að rök hinnar almennu skynsemi séu slíkum rökum yfirsterkari. Þá er ég þess fullviss að mikill meirihluti íbúa Reykjanesbæjar er frekar tilbúinn að taka þá áhættu sem í slíkri stöðvun felst en áhættunni sem felst í því að halda áfram stóriðjustefnunni með þeirri sjón- og loftmengun sem hellist yfir okkur með ófyrirséðum afleiðingum. Hættum við áður en það er orðið um seinan og segjum sögur af góðhjörtuðum jólasveinum sem létu ekki Grýlu og Leppalúða ráðskast með sig heldur yfirgáfu hellinn og snéru aldrei aftur...