HSS sumarstörf 14-21 mars
HSS sumarstörf 14-21 mars

Mannlíf

Lokaorð Sævars: Krókódíla Dundee og tískan
Sunnudagur 17. september 2017 kl. 06:00

Lokaorð Sævars: Krókódíla Dundee og tískan

Ég horfði mikið á Krókódíla Dundee þegar ég var yngri. Það mikið að spólan var farin að hökta af álagi undir lokin. Ég fékk fyrstu myndina á VHS spólu frá hálfbróður mínum sem er Ástrali. Spólan varð til þess að faðir minn festi kaup á VHS tæki og gaf gamla BETA tækið upp á bátinn. En af hverju er ég að tala um Krókódíla Dundee? Jú, því mér verður alltaf hugsað um hann þegar ég fer í veiði á sumrin og sé menn skarta veiðihöttum úr leðri. Það eru nefnilega sára fáir menn sem skarta leðurhöttum í dag án þess að vera í stangveiði. Mér dettur einna helst í hug Reyni Traustason, Þorvald Gylfason og Guðmund í Byrginu - sem kannski útskýrir af hverju leðurhattar og rykfrakkar njóta ekki meiri vinsælda.

Annað sem er í hálfgerðri útrýmingarhættu eru menn sem greiða yfir skalla, þ.e. skarta „comb over“. Það er algjör synd en mér finnst karlmenn nú til dags allt of fljótir að gefa hárið upp á bátinn. Menn rífa fram rakvélina um leið og hárið er farið að þynnast. Það virðist ekki vera í tísku að greiða yfir „hreiður“ frekar en að klæðast leðurhatti og rykfrakka! Blessunarlega er það nú svo að tískan fer í hringi. Látið ykkur því ekki bregða ef þið mætið undirrituðum á götum bæjarins í framtíðinni í rykfrakka og með veiðihatt úr leðri vel þrýstum á hnakkann því þennan tiltekna dag nennti hann hreinlega ekki að hafa fyrir því að greiða yfir hreiðrið...

Public deli
Public deli