Mannlíf

Lokaorð Sævars: Fylgifiskar vetrar
Mánudagur 27. nóvember 2017 kl. 06:00

Lokaorð Sævars: Fylgifiskar vetrar

Veturinn er genginn í garð og veðurguðirnir farnir að minna á sig. Þeir eiga það sameiginlegt hinir veraldlegu veðurguðir og hinir óveraldlegu að þeim er nánast fyrirmunað að láta okkur Íslendingum líða vel. Hinir veraldlegu veðurguðir, ásamt Ingó fyrirsvarsmanni sínum, semja lög og texta sem eru það mikið vonskuveður fyrir skynfærin að það nístir inn að beini. Á sama tíma senda hinir óveraldlegu veðurguðir okkur hreyting, slitring, hundslappadrífu, kafald, klessing, hríð, él, slyddu, skæðadrífu og hríðabyl eða hvað þær heita allar þessar ofankomur sem herja á okkur landsmenn á þessu guðsvolaða skeri á þessum tíma.

Auðvitað fagnar enginn kulda og vondu veðri en samt sem áður eru ákveðnir fylgifiskar vetrar konungs sem hægt er að gleðjast yfir. Má þar nefna norðurljósin, hina guðdómlegu desemberuppbót og blessaðan 13. mánuðinn! Hvernig í fjandanum tókst annars einhverjum að sannfæra stjórnendur ákveðinna fyrirtækja að árið spannaði 13 mánuði og þann 13. þyrfti aukin heldur ekki að vinna? Sá aðili býr svo sannarlega yfir sannfæringamætti ofar mínum skilning.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fátt gleður hins vegar jafn mikið í myrkrinu og kuldanum og jólabjórinn sem bjórframleiðendur keppast nú við að kynna. Í dag eru jólabjórsmakkanir orðnar vinsælar. Það er af sem áður var þegar farið var í jólabjórsmökkun á virkum degi, dreypt á 4-6 tegundum, keyrt... nei, ég meina labbað heim og farið í vinnu daginn eftir. Nú er varla farið í slíka smökkun án þess að kynntar séu til sögunnar 20 mismunandi bjórtegundir sem hver hefur sína sérstöðu, lykt og styrk. Þetta er skemmtileg þróun og gerir ferðina í „góða heiminn“ svo auðfarna að ekki einu sinni villtustu veðravíti né ömurlegustu lög eftir Ingó og Veðurguðina geta staðið þar í vegi. Heimleiðin verður að vísu torveldari og líklegra en ekki að hún sé ógreiðfær nema á fjórum fótum, vopnaður leiðarvísi og GPS tæki. Látið ykkur samt ekki detta það í hug að einhver fari í vinnuna daginn eftir slíka smökkun, nema þá mögulega þeir sem fá 13. mánuðinn greiddan...