Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Þöggun vs. málfrelsi

Mikið óskaplega fer það í taugarnar á mér þegar sumt fólk heldur því fram að það „megi“ ekki ræða ákveðna hluti, þegar hið rétta er að sama fólk þolir ekki þegar annað fólk einmitt „tekur umræðu“ og er einfaldlega á öðru máli en viðkomandi. Og þegar þetta sama fólk heldur því þá svo líka fram að verið sé að „þagga niður“ umræðuna get ég ekki lengur orða bundist. Þeir sem „þora“ verða nefnilega líka að þola, þola það að þeim sé andmælt og að þeir séu reknir til baka með staðlausar staðhæfingar. Þarna eru engin fórnarlömb þöggunar, því þarna er bara alls ekki um þöggun að ræða. Þvert á móti - þetta kallast umræða og skoðanaskipti.

Hugtakið þöggun þýðir nefnilega allt annað. Samkvæmt orðabókinni þýðir það „að þagga niður í einhverjum“. Eins mikið og fólk gæti langað til að þagga niður í ákveðnum einstaklingum vegna skoðana þeirra, þá er það sem betur fer ekki í boði á Íslandi. Hér ríkir nefnilega málfrelsi og er tjáningarfrelsi rækilega tryggt í 73. grein stjórnarskrárinnar.

Alvöru þöggun er hins vegar grafalvarlegt mál, eins og sést best af umræðu síðustu daga og vikna um þá þögn sem viðgengist hefur um ógeðslega kynferðislega áreitni og misnotkun af hálfu vondra karla í valdastöðum, hvort sem er í kvikmyndageiranum í Hollywood eða í ýmsum kimum samfélagsins hér á landi. Fórnarlömb þessara manna og þessarar þöggunar urðu mörg hver fyrir ofbeldi. Allir vissu en enginn sagði neitt og Weinsteinar þessa heims héldu bara áfram. Ekki lengur - vonandi hefur þögnin verið rofin þannig að þetta athæfi verði upprætt og skömminni skilað þangað sem hún á heima.

Köllum hlutina sínum réttu nöfnum. Í aðdraganda kosninga er málfrelsi sem aldrei fyrr, þá beinlínis á að ræða öll mál sem skipta almenning í landinu máli og kalla eftir stefnu flokka og frambjóðenda. Í flestum tilfellum fer stefna frambjóðenda saman við stefnu flokkanna sem þeir bjóða sig fram fyrir. Það er þó ekki algilt.