Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Sundlaugarþráhyggja
Laugardagur 27. janúar 2018 kl. 05:00

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Sundlaugarþráhyggja

Ég hef verið spurð að því á síðustu dögum og vikum hvort ég sé haldin þráhyggju,
sundlaugarþráhyggju? Og já…ég ætla að gangast við því.

Það hefur kannski ekki farið framhjá bæjarbúum að mér er umhugað um að gamla Sundhöllin okkar, sem teiknuð er af meistara Guðjóni Samúelssyni, fái að standa, hún verði gerð upp og fundið verðugt framtíðarhlutverk. Bæjaryfirvöld hafa nú til umfjöllunar tillögu að breyttu deiliskipulagi þar sem lagt er til að Sundhöllin verði rifin og að á lóðinni verði byggð fjölbýlishús. Ég má ekki til þess hugsa og tel að það yrði óafturkræft stórslys. Þrátt fyrir að húsið hafi verið selt einkaaðilum fyrir mörgum árum hefur aldrei verið samþykkt tillaga að niðurrifi – og það má ekki gerast núna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sundlaugin sem vígð var 1939, og Sundhöllin sem byggð var yfir laugina eftir teikningu Guðjóns og vígð 1951, er órjúfanlegur hluti af sögu Keflavíkur og Suðurnesjanna allra, hvort heldur sem litið er til menningarsögu, byggingarsögu eða íþróttasögu. Bæjarbúar byggðu laugina, börn og fullorðnir. Ungmannafélagið hafði um það forgöngu og allir tóku þátt. Þvílík lyftistöng fyrir samfélagið á þeim tíma. Síðar tók bærinn við og ákveðið var að byggja yfir laugina þannig að Suðurnesjamenn gætu stundað sund allt árið um kring.

Byggingarsögulega er þetta einnig merk bygging. Sundhöllin er hluti af „sundhallarseríu“ Guðjóns Samúelssonar þar sem einnig eru Sundhöllin á Seyðisfirði, í Hafnarfirði og að ógleymdri drottningunni, Sundhöll Reykjavíkur. Unnið er að heildaryfirliti yfir verk Guðjóns og við íbúar Reykjanesbæjar megum vera stolt af því að hér í bæ eigum við þrjú glæsileg verk eftir Guðjón, Sundhöllina, Myllubakkaskóla og Sjúkrahúsið.

Byggingin má sannarlega muna sinn fífil fegurri, og já, það mun væntanlega kosta talsverða fjármuni að koma henni í upprunalegt horf. „Hvað á að gera við hana“ spyr fólk og „hver á að gera það?“ Mitt svar við því er: Við gerum ekkert við hana þegar búið er að rífa hana, þannig að fyrsta verkefnið hlýtur að vera að hafna deiliskipulaginu og forða Sundhöllinni frá niðurrifi. Þegar það er tryggt hef ég engar áhyggjur af framhaldinu, þegar eru fjölmargar tillögur og hugmyndir komnar fram og heill her af áhugasömu fólki sem er til í að vera með.

Og þá komum við að þráhyggjunni. Sigga Kling vinkona mín sagði mér í vikunni að orðið þráhyggja væri rangtúlkað. Þráhyggja þýðir í raun „að hyggja að einhverju sem þú þráir“. Og það er fallegt, við því gengst ég fúslega og ég er ekki ein í því, heldur betur ekki. Hópurinn okkar stækkar dag frá degi og telur þegar þetta er skrifað tæplega 1500 manns. Og þegar slíkur fjöldi leggur sig saman um að „hyggja að einhverju sem það þráir“ þá fara hlutirnir að gerast!