Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Lengi lifi byltingin!
Ég hélt að ég ætti aldrei eftir að segja þessi orð. Ég er íhaldsmaður fram í fingurgóma, hef talið að þjóðfélagsbreytingar væru almennt betri þegar þær gerast hægt og örugglega og að byltingar væru bara einhver bölvuð vinstrivitleysa.
Og þannig leið mér þegar mér var boðið af góðri vinkonu minni af vinstri væng stjórnmálanna inn í facebook hópinn „Í skugga valdsins“ á föstudagskvöldi fyrir tæpum tveimur vikum. Ég hugsaði með mér að nú væru vinstri kellurnar farnar af hjörunum eina ferðina enn, flestar þeirra sem skráðu sig voru af þeim væng stjórnmálanna. En svo fór ég að lesa frásagnirnar, alls konar frásagnir af alls konar upplifunum. Upplifunum sem ég tengdi við, upplifun af menningu sem sem ég þekkti of vel. Og þá sá ég að þetta var ekki eitthvað sem ætti að snúast um hægri eða vinstri, þetta snerist fyrst og fremst um að uppræta óboðlegan kúltúr sem viðgengst allt of víða í okkar góða samfélagi. Og slíkt gerist ekki nema allir taki höndum saman - vinstri og hægri, karlar og konur - og þá er bylting kannski það eina sem dugar til.
Og byltingin hefur verið mögnuð. Það hefur verið ótrúlegt að finna samstöðuna meðal kvenna þvert á flokka, á öllum aldri, hvaðanæva af landinu. Kvenna sem ég hef haft atvinnu af því að vera ósammála eiginlega í öllu svo árum skiptir. Þó svo að sögurnar séu margvíslegar og mismunandi og að mörgum finnist ýmsu verið grautað saman þá er sterkur þráður sem liggur þarna í gegn og það er sá ósýnilegi þráður sem við viljum útrýma úr stjórnmálum. Það er ekkert eðlilegt við það að nánast allar konur hafi orðið fyrir óæskilegri hegðun, hvort sem það sé í formi orða eða annars konar áreitis. Við nennum því ekki lengur, þessu skulum við breyta, breyta strax og þá þarf byltingu. Hugarfarsbyltingu.
Og þá þurfum við líka að vita hverju við ætlum að bylta. Við ætlum ekki að hætta að vera góð hvert við annað, heilsa með kossi á kinn eða faðma kæra vini. Langflestir þekkja þessi mörk og eru ekkert í vafa um hvað má og hvað ekki.
Ég vil ljúka þessum pistli með að vitna í fyrrum samstarfsmann minn á Alþingi, einn af þeim sem ég hafði atvinnu af að vera ósammála. En samt er Guðmundur Steingrímsson ágætur og hann nær svo ljómandi vel utan um þetta þegar hann segir: „Verum lifandi, verum skotin, verum frjáls, gerum okkur að fíflum, reynum við, flörtum. Allt þetta má. Við erum mannleg. En ekki vera dónakarl. Sýndu virðingu. Virtu mörk. Ekki niðurlægja.“