Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Beinum sjónum að sjónum
Þriðjudagur 29. ágúst 2017 kl. 06:00

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Beinum sjónum að sjónum

Í þessu dásemdarveðri sem hefur verið í sumar og hef ég notið þess að ganga og hjóla á fallegu strandleiðinni okkar hér í Reykjanesbæ. Ég segi það fullum fetum að þessi skemmtilega gönguleið hefur stórbætt lífsgæði mín. Ég sæki andlega og líkamlega næringu í fallegt og margbreytilegt umhverfið, hvort sem dagarnir eru sólríkir og lygnir eða þungbúnir og hvassir.

Það var sérstaklega skemmtilegt nú í vikunni að fylgjast með makrílbátunum að veiðum nánast við fjöruborðið í Keflavíkinni og sjá hafnirnar iða af lífi frá morgni til kvölds. Ég hef lengi átt þann draum að glæða strandleiðina meira lífi, fá okkur bæjarbúa og gesti okkar meira að sjónum. Ég er nýkomin frá sjávarborginni Seattle í Bandaríkjunum og þar naut ég þess að ganga meðfram sjónum, skoða mig um á alls konar mörkuðum með ferskan fisk, grænmeti, ávexti og ýmsan listvarning. Þar voru veitingastaðir, kaffihús, barir og söfn þar sem gestir gátu notið matar og drykkjar og fallega sjávarútsýnisins. Við þurfum reyndar ekki að líta út fyrir landsteinana til að finna dæmi um iðandi mannlíf við sjávarsíðuna - Grandinn í Reykjavík er nærtækara dæmi. Þar hefur orðið gríðarlegur viðsnúningur á örfáum árum og glæsileg uppbygging margvíslegrar starfsemi með iðandi mannlífi í áður yfirgefnu húsnæði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Strandleiðin okkar er gríðarleg auðlind, útsýnið fagurt með lokkandi aðdráttarafl. Á köflum hennar er útsýnið hinum megin því miður þó ekki alveg jafn glæsilegt, tóm niðurnýdd hús og vélarusl. Ég vil þó taka sérstaklega fram að margt gott hefur verið gert, smábátahöfnin í Grófinni, svæðið í kringum Duus húsin og neðanverð Hafnargatan hafa tekið stakkaskiptum á umliðnum árum.

Mig langar svo í meira svoleiðis. Mig langar til að nýta gömlu niðurnýddu húsin og glæða þau lífi. Ég hef áður nefnt gömlu sundlaugina á þessum vettvangi og svæðið þar í kring, þar eru ótrúleg tækifæri til þess að skipuleggja „mannlífsaukandi„ starfsemi. Eins svæðin þegar komið er bæði að Keflavíkurhöfn og Njarðvíkurhöfn. Gamlar bensínstöðvar og verkstæði á stórkostlegum útsýnisstöðum hreinlega bíða eftir nýju hlutverki.

Því segi ég - beinum sjónum okkar að sjónum - þar er sannarlega verðmæti að finna.