Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Áramótaheitið og jólakúlan
Miðvikudagur 11. janúar 2017 kl. 05:30

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Áramótaheitið og jólakúlan

Nýtt ár er alltaf svo spennandi - nýtt upphaf með áformum um betra líf, sókn og sigra. Við erum á upphafsreit, í startinu á hlaupabrautinni. Áramótaheitin hjá mér í gegnum tíðina hafa alltaf verið frekar hefðbundin og óspennandi - svona „borða hollara og hreyfa sig meira“ áramótaheit. Þau eru svo sem ágæt en nú stend ég hins vegar á svo miklum tímamótum persónulega að mér finnst eins og ég þurfi að leggja aðeins meira í áramótaheit ársins. Ég verð fimmtug á árinu, stend frammi fyrir nýjum starfsvettvangi og hef svo ótrúlega mikil tækifæri akkúrat núna til að taka seinni hálfleikinn með dynk og stæl. Ég ætla að vanda mig, velja vel bæði starfsvettvang og ekki síður samstarfs- og samferðafólk. Mig langar einfaldlega að gera bara skemmtilega hluti með skemmtilegu fólki, jú og í leiðinni að breyta heiminum og bæta samfélagið.
Svo ætla ég líka að sinna fólkinu mínu betur, fjölskyldu og kærum vinum sem ég hef átt til að vanrækja í önnum stjórnmálanna. Ég ætla einfaldlega að vera meira með fólki sem mér líkar við og þykir vænt um og fækka stundunum með hinum. Ég ætla að einfalda líf mitt - taka til í skápum og skúmaskotum og losa mig við allan óþarfa.

Ég ætla líka að strengja þess heit að tjútta rækilega á fimmtugsafmælinu mínu í september og dansa fram á nótt. En til þess að geta það er því miður nauðsynlegt að ráðast í óumflýjanlegt viðhald. Já, það er verulega hart að þurfa að viðurkenna það, eins ung og ég er, að ég þurfi að láta setja í mig varahlut. Og þá á ég ekki við svona eitthvað í varirnar eins og sumir á mínum aldri gera, heldur er nýi varahluturinn spánný mjaðmakúla. Þetta er ekki vegna aldurs heldur auðvitað vegna gamalla íþróttameiðsla. Maðurinn minn segir reyndar að þetta sé ný diskókúla sem eigi rætur að rekja til hversu dugleg ég hef verið gegnum tíðina á dansgólfinu. Nú um hátíðirnar hefur nýja kúlan reyndar verið nefnd „jólakúlan“ og yngri sonur okkar er staðráðinn í að sjá þá gömlu hanga á jólatrénu um næstu jól. Við sjáum nú til með það.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En punkturinn er þessi. Þrátt fyrir öll góð fyrirheit og metnaðarfull áramótaheit er raunveruleikinn sá að á endanum erum það ekki við sem ráðum þessu öllu saman ein og sér. Góð heilsa og heilbrigði er forsenda alls og auðvitað þess hvar við dönsum í september. Á endanum er það kannski bara þetta hefðbundna áramótaheit sem ég nefndi í uppafi sem leggur grunninn og gerir mest fyrir okkur...hversu óspennandi sem það kann að hljóma.

Gleðilegt ár kæru lesendur - megi það færa ykkur gleði, hamingju og umfram allt heilbrigði.