Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Áhyggjur af snjóleysi
Miðvikudagur 15. febrúar 2017 kl. 06:00

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Áhyggjur af snjóleysi

Það er vandlifað í þessum heimi. Ég hélt að ég ætti aldrei eftir að kvarta yfir snjóleysi í febrúar. Aldrei! Að þurfa ekki að skafa af bílnum, moka tröppur og geta verið í skvísuskóm í stað kuldabomsa ætti að vera fagnaðarefni. Enginn skafrenningur á Brautinni eða skaflar á gangstéttum. Að auki sparar þessi tíð ríki og sveitarfélögum stórar fjárhæðir í snjómokstri sem má þá nota í aðra góða hluti.

En nú er staðan sú að ég sef varla fyrir áhyggjum af snjóleysi. Ég vakna á nóttunni og tek veðrið, skoða langtímaspár og ræði við eldra fólk aðallega úr bænda- og sjómannastétt sem vita meira en margir veðurfræðingarnir um veðrabrigði hér á landi. Og þeir gefa mér litla von. Ég hef ákallað veðurguðina og dansað snjódans sem ég las um á netinu...en ekkert gerist.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þannig er að ég á von á gestum. Fjögurra manna fjölskyldu sem er að koma hingað til lands til að sjá snjó. Og jú jú, auðvitað eru þau líka að heimsækja okkur fjölskylduna og verða alveg glöð að sjá okkur...en þau eru samt fyrst og fremst að koma hingað til að sjá snjó og upplifa kaldan íslenskan, snjóþungan vetur. Þess vegna eru þau jú að koma í febrúar.

Þau eru nýflutt frá Asíu og drengirnir þeirra hafa sum sé aldrei séð snjó á ævinni. Þeir telja niður dagana og geta ekki beðið eftir að búa til snjókall í garðinum hjá okkur og renna sér á sleða. Ég viðurkenni að ég er kannski líka aðeins búin að kynda undir væntingar með því að senda þeim ótal myndbönd af garðinum á Heiðarbrúninni í fallegum vetrarbúningi og af dimmum éljum á Reykjanesbrautinni til að gera þetta ævintýralegt og spennandi.

En ég hef ekki sent þeim nein myndbönd síðustu daga enda held ég að þau hafi oft séð rigningu og rok. Og nú þegar 10 dagar eru í komu þeirra sýnist mér að ég verði að fara með þau eitthvert upp á jökul til að uppfylla drauminn.

En ég ætla að halda áfram að dansa snjódansinn. Ég bið lesendur fyrirfram afsökunar ef það skellur nú á með stórhríð.