Mannlíf

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Að stjórnmála yfir sig
Miðvikudagur 4. október 2017 kl. 06:00

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Að stjórnmála yfir sig

Við göngum til kosninga. Aftur og nýbúin. Það sem átti að verða rólegheitavetur í pólitíkinni, lognið á undan sveitarstjórnarkosningunum, verður eftir því sem manni sýnist hatrammt kosningahaust. Við höfum sennilega flest öll misst töluna á því hversu margar kosningar hafa verið haldnar á síðustu árum, en í fljótu bragði reiknast mér til að með öllum Icesave atkvæðagreiðslunum, Stjórnlagaráðskosningum, þing-, sveitarstjórna- og forsetakosningunum, verði komandi kosningar þær þrettándu síðan það herrans ár 2007. Er von að kjósendur séu að verða kosningamóðir?

Ég var að minnsta kosti ekki að vonast eftir kosningum akkúrat núna. Hafandi verið lengi á hinu pólitíska sviði fannst mér ótrúlega notalegt að halla mér aftur og þurfa barasta ekkert að hugsa um pólitík. Var meira að segja aðeins farin að kvíða vorinu og sveitarstjórnarkosningunum með allri þeirri pólitík sem þeim fylgir, þó aðeins minna eftir að menn hættu að spyrja mig endalaust hvort ég væri ekki örugglega á leið í framboð? Því svarið mitt var alltaf skýrt: „Nei, ég er ekki á leið í sveitarstjórnarmálin.“ Já, það var hið elskulegasta fólk úr öllum áttum sem einlæglega vildi að ég færi inn á þann vettvang. Og ég þakka traustið - það var bara notalegt að finna það.

Public deli
Public deli

Mér finnst vont að ríkisstjórnin hafi sprungið, mér finnst það vont vegna þeirrar óvissu og vandræða sem pólitískum óstöðugleika fylgir. En það kom mér kannski ekki frekar en öðrum endilega á óvart að svo skyldi fara eftir það sem á undan var gengið. Blekið var ekki þornað á stjórnarsáttmálanum þegar óánægðir lukkuriddarar með stórkallakomplex fóru að láta á sér kræla. Eins manns meirihluti er snúinn og allir bera ábyrgð.

Því fór sem fór og boðað er til alþingiskosninga. Og héðan af Heiðarbrúninni er það að frétta að sama fólkið og áður fer af stað og spyr hvort ég sé núna ekki örugglega leið í framboð? Ég hafði nefnilega sagt skýrt að ég væri ekki á leið í sveitarstjórnarmálin - en nú eru að koma alþingiskosningar! Aftur, þetta er skemmtilegt, ég þakka traustið...en ég er búin að stjórnmála yfir mig.