Lokaorð Örvars: Túristar
Hin gríðarlega aukning ferðamanna hér á landi hefur ekki farið framhjá neinum. Ferðaþjónustan er orðin ein af mikilvægustu atvinnugreinum þjóðarinnar og vöxturinn virðist endalaus. Frá árinu 2010 hefur fjöldi ferðamanna þrefaldast. Eyðsla allra ferðamanna nam hér um 210 milljörðum króna árið 2015. Svo sannarlega jákvætt og þetta er okkur öllum til heilla þótt vissulega séu ákveðnir vaxtaverkir sem fylgja eins og sú staðreynd að innviðauppbygging hefur ekki fylgt eftir þeim mikla vexti sem verið hefur í fjölgun ferðamanna. Stjórnvöld þurfa að gera mikið betur í þeim málum, til dæmis hefur það ekki farið framhjá neinum hérna á svæðinu að ástand Reykjanesbrautar er algjörlega óásættanlegt. Stjórnvöld verða að setja þessi mál í algjöran forgang, annars er sú hætta fyrir hendi að slysum fjölgi enn frekar og orðspor okkar sem öruggt land bíði hnekki. Huga þarf einnig að náttúruvernd, til dæmis á sumrin við mestu náttúruperlur okkar. Dreifing ferðamanna um landið er sennilega eitt mikilvægasta verkefni ferðaþjónustunnar í dag. Hér í Reykjanesbæ hefur vissulega orðið fjölgun ferðamanna en staðreyndin er samt sú að allt of mikill fjöldi keyrir hreinlega bara hér í gegn og veit ekkert um það hvað hér er í boði. Á meðan heyrast raddir úr 101 Reykjavík þar sem fólk kvartar yfir of mörgum ferðamönnum. Í Reykjanesbæ er hins vegar pláss fyrir miklu fleiri. Við þurfum að vera dugleg að tala upp bæinn okkar, því miður hefur maður tekið eftir því að fólk tali frekar bæjarfélagið niður. Ferðaþjónustan er mjög samofin öðrum greinum hagkerfisins því ferðamenn kaupa ekki bara flug og gistingu heldur aðra vöru og þjónustu. Í Reykjanesbæ og næsta nágrenni er fullt af áhugaverðum stöðum, veitingum, verslunum og þjónustu. Sjálfur var ég staddur uppi í flugstöð í sumar og varð vitni að samtali tveggja erlendra ferðamanna við starfsmann í Leifsstöð. Þau voru að velta fyrir sér góðum stað að kíkja á en ekki of langt frá vegna tímaleysis. Þessi starfsmaður sagði þeim að fyrir utan Bláa Lónið þá væri nú ekkert merkilegt í nágrenninu nema þá að keyra til Reykjavíkur. Ég var ekki lengi að skipta mér af og benti þessu ágæta fólki sem dæmi á Kaffi Duus ásamt því sem ég sagði þeim frá Vatnaveröld ef þau vildu skola af sér fyrir komandi ferðalag og svo las ég viðkomandi starfsmanni pistilinn. Það var þó svona frekar á vinalegum nótum. Það er nefnilega okkar að tala bæjarfélagið upp og mæra allt það sem hér er í boði, það skilar sér alltaf að lokum. Það sem er hversdagslegt í huga okkar er sennilega afar merkilegt í huga ferðamannsins, svo er Reykjanesbær bara alls ekkert svo slæmur. Því þrátt fyrir erfiða skuldastöðu þá eru hér fjölmörg jákvæð teikn á lofti og við verðum að horfa fram en ekki alltaf aftur. Við viljum stærri hluta af túrista- kökunni, tækifærin eru svo sannarlega fyrir hendi, við þurfum að hafa trú á okkar.
Örvar Kristjánsson.