Lokaorð Örvars: Þú hefur fullkomna sjón
Jólin eru búin og við tekur frekar dimmur janúar. Það verður fyrst um sinn þungt yfir fólki, deyfð og vonleysi hrjáir marga en tíðari ferðir í ræktina og þegar daginn fer aðeins að lengja kemur brosið á flesta þegar líður á mánuðinn. Janúar er samt að mínu mati afar skemmtilegur, ekki síst vegna þess að nú fer tími Þorrablótanna í gang. Ákveðin deyfð var komin í þessa skemmtilegu hefð en á árunum eftir hrun þá hafa þau (blótin) tekið all hressilega við sér hérna á Suðurnesjunum sem og reyndar um land allt. Í raun þá má segja að þetta hafi byrjað í þeirri mynd sem við þekkjum núna með þorrablóti Garðmanna árið 2010 sem rétt rúmlega 700 manns sóttu (eða rétt rúmlega tífaldur íbúafjöldinn í Garðinum)! Svona gróft áætlað sækja sennilega um 2200 til 2400 manns stóru blótin hérna á svæðinu (Garðurinn, Keflavík, Njarðvík og Grindavík) og færri komast að en vilja. Þorrablótin eru aldagömul og skemmtileg hefð okkar Íslendinga sem hafa þó breyst í tímanna rás en aðalsmerki Þorrablótanna eru þó ávallt þau sömu, menn gera vel við sig í mat og drykk, syngja, dansa og hlægja saman. Þetta er einhver allra skemmtilegasti mannfögnuður ársins fyrir okkur flest, þarna hittast ungir sem aldnir og skemmta sér (detta í það) ærlega saman. Óhætt er að segja að öllu sé tjaldað til og blótin hafa verið einstaklega vegleg undanfarin ár – en síðast en ekki síst er þetta nánast eina skiptið á árinu þar sem kynslóðirnar skemmta sér saman. Barnabörnin detta í það með ömmu og afa, gamlir vinir hittast á nýjan leik og rifja upp gamla tíma og ilmurinn af súrmetinu skapar stemmingu sem ekki er hægt að bera saman við neitt annað. Þetta eru einfaldlega partý sem geta bara ekki klikkað. Ein af breytingunum í gegnum árin er sú að gjarnan er líka boðið upp á nútímalegri mat fyrir þá sem ekki líkar súrmetið, pottréttir eða kjötsúpa sem dæmi og ætla ég rétt að vona að menn fari ekki að bjóða uppá vegandraslið líka. Þá verður þetta fljótt að fara til andskotans. Keflvíkingar ríða á vaðið og halda upp á fyrsta blótið í ár eða núna á laugardaginn 13. janúar en svo rúllar þetta koll af kolli.
Ég óska Suðurnesjamönnum góðrar skemmtunar á þeim blótum sem eru framundan, gangið hægt um gleðinnar dyr og farið varlega. Sérstaklega þó við karlpeningurinn, ég nefnilega man vel eftir því að hafa hitt einn ágætan mann sem ég er kunnugur, á einu blótinu í hitteðfyrra, sá var með mjög myndarlegt glóðarauga. Ég spurði hann hvað hefði eiginlega komið fyrir. „Þetta gerðist rétt fyrir blótið kallinn minn,“ sagði hann frekar dapur í bragði. „Konan var eins og venjulega búin að vera í nokkra klukkutíma að taka sig til og stóð fyrir framan spegilinn. Ég var orðinn afar pirraður að bíða og bíða en þá segir hún blessunin: „Mér finnst ég vera svo feit“…. „Viltu nú einu sinni hrósa mér“….. og eftir smá hugsun sagði ég „Þú hefur fullkomna sjón.“