Lokaorð Örvars: Samstaða

Þá er enn einum kosningunum lokið og eins og alltaf þá sigruðu allir. Kosningabaráttan var að mínu mati drepleiðinleg að þessu sinni svona að flestu leyti en þessu er blessunarlega lokið og óska ég þingmönnum til hamingju með störfin sín. Nú tekur við hið furðu flókna verk að mynda sterka ríkisstjórn og það verður ekki auðvelt enda átta flokkar sem tóku sæti á Alþingi að þessu sinni. Eitthvað er um nýja þingmenn núna (12 alls) þótt þetta séu nú flest kunnugleg andlit en hlutur kvenna rýrnar talsvert sem er alls ekki góð þróun. Fólk er eðlilega misjafnlega sátt með úrslit kosninganna en þó greinir maður þann tón hjá flestum að nóg sé komið um kosningar, núna verði vonandi mynduð stjórn sem klárar hér heilt kjörtímabil til tilbreytingar. Fyrir okkur Suðurnesjamenn verður þetta afar fróðlegt og í raun mjög spennandi. Því fyrir þessar kosningar var nefnilega gríðarlega mikil vakning um „fjársvelt Suðurnes“ og þá bláköldu staðreynd að ríkisvaldið hefur komið fram við okkur í raun sem annars flokks þegna um áratuga skeið. Staðreynd sem fólk hefur rausað um lengi en núna virðist vera breiðari samstaða og meiri vakning um þessi mál en oft áður. Fjársveltið er út um allar trissur HSS, lögreglan, FS og fleira sem hefur ekki fengið sambærilegan stuðning frá ríkinu hér fyrir sunnan og annars staðar á landinu. Fjárveitingar ríkisins til HSS hafa reyndar verið hlægilegar um áratuga skeið og oft hefur verið bent á það en ekkert gerst.

Reykjanesbær á mikið hrós skilið fyrir afar öflugan og opinn fund sem haldinn var vikuna fyrir kosningar, þar sem niðurstöður Hugins Þorsteinssonar um fjársvelti til svæðisins voru kynntar á mannamáli. Þingmenn Suðurkjördæmis, sem kváðu sér hljóðs á fundinum, sögðust kannast við vandann. Sumir kváðust ekki hafa áttað sig á að munurinn væri eins mikill og niðurstöður Hugins gáfu til kynna en allir voru staðráðnir í að taka á málinu.  Sveitarstjórnarmenn hafa þó bent á þennan vanda í fjölda ára við dræmar undirtektir vægast sagt. Við íbúar svæðisins verðum að standa saman óháð því hvar (eða hvort) við settum X-ið okkar á kjörseðilinn sl. laugardag og sjá til þess að þingmenn okkar (kjördæmisins) bregðist við þessari ósanngirni og knýi fram leiðréttingu (og helst afturvirka) enda óhemju mikilvægt málefni fyrir okkur. Í raun þá er þetta að mínu mati það mál sem skiptir okkur hvað mestu máli hérna fyrir sunnan. Þingmenn okkar sem við réðum í vinnu hafa lofað okkur að taka á þessu, gera eitthvað í málunum. Fylgjum þessu þá eftir, sýnum breiða samstöðu. Það er t.d auðvelt að nálgast, ná í þingmenn okkar í dag. Tölvupóstar, samfélagsmiðlar nú eða þá bara að hringja, höldum þrýsting á þessu máli, ekki nema staðar fyrr en við fáum sanngjarna meðferð hérna fyrir sunnan. Við erum nefnilega líka fyrsta flokks íbúar þessa lands.