Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð Örvars: Kjarabarátta kennara
Miðvikudagur 30. nóvember 2016 kl. 06:00

Lokaorð Örvars: Kjarabarátta kennara

Mikið hefur verið rætt um grunnskólakennara á síðustu vikum og þá staðreynd að kennarar telja kjör sín óviðunandi og að kennarastarfið sé alls ekki metið að verðleikum. Ég er hjartanlega sammála kennurum. Ófaglærðir einstaklingar, leiðbeinendur, hafa verið ráðnir til að sinna kennslu því auglýsingar eftir kennaramenntuðu fólki hafa ekki borið árangur. Leiðbeinendur í raun sjá til þess að skólahald geti gengið stóráfallalaust fyrir sig en það mun að öllu óbreyttu ekki ganga upp mikið lengur. Það er líka staða sem við eigum ekki að sætta okkur við. Hin óhóflega og undarlega hækkun Kjararáðs var kornið sem hreinlega fyllti mælinn hjá kennurum, í rauninni þá sprakk allt. Eðlilega.

Kennarar voru eitt sinn virt stétt (launalega séð) og í sama flokki og alþingismenn. Það er himinn og haf milli þessara aðila núna og í raun er það engin lygi að kennarar séu láglaunastétt í dag. En hvers vegna er þetta svona? Eru ekki allir í dag (a.m.k. flestir) sammála um mikilvægi kennara í samfélaginu? Eða er staðreyndin kannski sú að ákveðnir fordómar séu ennþá í samfélaginu um kennara og störf þeirra? Mýtan um löng frí og stutta vinnudaga? Ég hafði um skeið þessa fordóma sjálfur. Hvet þá sem hugsa svo að kynna sér virkilega störf kennarans. Raunin er allt önnur og þetta starf hefur svo sannarlega ekki orðið auðveldara með árunum. Þrátt fyrir að vera á sama tíma afar gefandi. Sjálfur hef ég unnið með börnum og unglingum í hátt í 20 ár sem þjálfari í körfubolta. Á margan hátt er margt líkt með störfum kennarans, en sumt auðvitað ekki en það er virkilega gefandi og skemmtilegt að vinna með ungviðinu en jafnframt afar krefjandi og það hvílir á manni mikil ábyrgð. Vinnunni er langt frá því lokið þegar maður kemur heim. Á síðustu árum hefur umhverfið/samfélagið okkar breyst sem gerir þetta ennþá meira krefjandi, en fyrir því eru margar ástæður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sem foreldri geri ég þá kröfu að börnin mín séu meðhöndluð af fagfólki og sérfræðingum öll þau tíu ár sem þau eru í grunnskólanum. Umhverfi þeirra sé stýrt af aðilum sem eru sérfræðingar í málefnum þeirra. Segi þetta með fullri virðingu fyrir öllum þeim frábæru leiðbeinendum sem starfa við skólana okkar en skortur á faglærðum kennurum er orðið mikið vandamál sem jafnvel núna er orðið of seint að bregðast við. Þeir sem eru eftir segja nú upp í umvörpum og er ástandið grafalvarlegt. Það er næga vinnu að fá um þessar mundir og kennarar eru líka eftirsóttir starfskraftar. Til dæmis er gríðarleg vöntun á góðu fólki til þess að halda utan um og vinna að mikilli aukningu í ferðaþjónustu á Íslandi. Viðurkenni það fúslega að ég hef miklar áhyggjur af ástandinu, er með einn dreng í grunnskóla sem unir sér vel og aðra tvo á leiðinni í náinni framtíð. Mikilvægi leik og grunnskólakennara í lífi okkar fjölskyldunnar er gríðarlega mikið, ég styð kjarabaráttu þessa fólks. Hugsa hlýtt til þeirra kennara sem kenndu mér á mínum grunnskólaárum og er þeim afar þakklátur. Foreldrar, styðjum þessa baráttu kennara.