Mannlíf

Lokaorð Örvars: Jóla góðverk
Mánudagur 11. desember 2017 kl. 06:00

Lokaorð Örvars: Jóla góðverk

Tíminn flýgur og senn líður að jólum. Í desember lýsist allt skammdegið upp og næstum allir eru á hraða spretti að undirbúa hátíðarnar, flestir þó með bros á vör. Þetta er fyrir okkur flest einn af bestu mánuðum ársins en einnig sá annasamasti enda að mörgu að hyggja. Jólaundirbúningnum fylgir þó bæði tilhlökkun og oftar en ekki aukið stress og álag. Álagið er helst tilkomið vegna þeirra mörgu verkefna sem bætast á þau hversdagslegu sem fyrir eru sem fólk stressar sig yfir. Margir upplifa því að spennan fyrir jólunum sé frekar neikvæð. Þeir finna fyrir pirringi, eirðarleysi og áhyggjum því allt á að vera svo fullkomið. Margir ráða hreinlega ekki við þetta allt saman og þá breytist þessi mánuður hreinlega í algjöra martröð. Með hækkandi aldri hefur maður þó lært að jólin koma og fara aftur og allt þetta stress ætti í raun að vera algjörlega óþarft. Það fer ekki allt fjandans til þótt jólakortin gleymist eitt árið og það skiptir engu máli þótt sósan sé ekki fullkomin eða það sé blettur á jólaskyrtunni. Jólin eiga nefnilega ekki að snúast um það að allt sé fullkomið. Þau eiga að snúast um að eiga góðan tíma með fjölskyldunni, hækkandi sól og að gera sér dagamun í svartasta skammdeginu með því að njóta og gleðja aðra. En svo eru því miður allt allt of margir sem hafa töluverðar fjárhagsáhyggjur á þessum tíma árs því jú öll þessi hátíðarhöld kosta sitt (jafnvel þótt fólki sé boðið að greiða herlegheitin í febrúar) og allir vilja halda jólin á „mannsæmandi“ hátt. Mig langar að benda fólki á hreint ágæta leið til þess að hjálpa til við jólastressið og gera mánuðinn jafnvel ennþá betri. Það er einfaldlega með því að gera eitthvað góðverk, hjálpa einstaklingum/fjölskyldum sem eiga undir högg að sækja af einhverjum ástæðum. Ég hef reynt að gera þetta í fjölda ára, eitt lítið góðverk fyrir jól, þau hafa verið afar mismunandi í gegnum tíðina. Aðstæður hjá fólki eru breytilegar og stundum hefur maður minna milli handanna en áður, en það er hugurinn sem gildir og hvert góðverk telur. Mig langar að til dæmis að benda á síðu sem er á Facebook og heitir matargjafir á Suðurnesjunum, það eru gæðakonur sem sjá um síðuna og koma áleiðis gjöfum til fólks sem er í vanda. Öllu því sem fólk getur látið af hendi er komið til skila á góða staði. Margt smátt gerir eitt stórt. Sama á hvað við trúum eða trúum ekki á þá er boðskapur jólanna hinn sami hjá öllum ekki satt? Að gleðja aðra. Því miður er fjöldi fólks sem fer halloka í samfélaginu af hinum ýmsu ástæðum og það t.d að kaupa einn auka hrygg í Bónus eða auka jóla-ís gæti verið akkúrat það sem einhvern vantar. Þannig ég skora á ykkur öll, að setja ykkur markmið í desember, gera eitt jóla-góðverk og helst fyrir einhvern sem þið jafnvel þekkið ekki neitt. Það bætir, hressir og kætir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024