Lokaorð Örvars: Einblínum á jákvæðu hlutina
Það er komið 2017! Nýtt ár og ný tækifæri. Persónulega kveð ég árið 2016 með söknuði enda á margan hátt afar skemmtilegt. Nenni ekki að tengja það við eitthvað neikvætt eins og Panamaskjöl eða andlát frægra listamanna heldur horfi ég frekar á allt það jákvæða. Reyndar er ekki allt neikvætt við það þegar þekktir listamenn kveðja, nýjar kynslóðir upplifa þá kannski í fyrsta sinn verk þeirra og aðrir endurnýja kynnin. (Hvet fólk til þess að rifja upp gamanmyndir Gene Wilder við tækifæri). En 2016 var gott ár að mínu mati og það er sérstakt gleðiefni hversu mikið líf og uppgangur er hér á Suðurnesjunum.
Á persónulegu nótunum gleymi ég sennilega aldrei þeirri stund sem ég upplifði á Stade De France sl. sumar þegar Arnór Ingvi Traustason (Njarð/Keflvíkingur-inn) tryggði Íslendingum 2-1 sigur á Austurríki á lokamínútunni á EM í fótbolta! Þarna voru um 10.000 Íslendingar, allir jákvæðir og glaðir, markið fékk ókunnugt fólk til þess að fallast í faðma, sumir felldu tár en aðrir hoppuðu og ærðust hreinlega af kæti. Vissu í raun ekki hvað þeir ættu að gera við sjálfan sig, sungu svo og trölluðu langt fram á nótt. Ólýsanleg stund og sjaldan hefur maður verið jafn stoltur af því að vera Íslendingur. Það var einmitt rétt fyrir þessa ferð að umræðan á kaffistofunni var þannig að við Íslendingar værum atlægi í hinum erlenda heimi, vegna Panamaskjalanna. Kvöldið góða í París 22. júní 2016 strax eftir þennan leik vildu allir vera Íslendingar, meira að segja Effeil turninn var lýstur í íslensku fánalitunum. Íþróttir geta nefnilega umfram allt annað sameinað fólk og fært það saman á hátt sem erfitt er að útskýra. Upplifði sama hlutinn á EM í körfubolta í Berlín 2015, ekki ósvipuð upplifun að sjá Loga Gunnarsson tryggja okkur framlengingu gegn Tyrkjum með flautu þrist! Rúmlega þúsund Íslendingar misstu sig og sýndu tilfinningar sem sjást varla nema á sviðum íþróttanna, einlæg gleði og stolt. Samvinna á alla kanta leikmenn, þjálfarar og stuðningsmenn vinna saman í blíðu og stríðu. Væri ekki amalegt ef pólitíkusar tækju upp sömu hætti en í þeim geira finnst manni æði oft vanta uppá samvinnuna, samheldnina og gleðina. Því miður. En það er komið nýtt ár, ný ríkisstjórn hefur loksins verið mynduð og óska ég henni velfarnaðar enda jákvæður að eðlisfari. Byrjunin lofar þó ekki góðu, einhugur er ekki um ráðherraskipan sumir eru í fýlu (kannski eðlilega hér í okkar kjördæmi) og sumir sem vildu kjósa út af lélegum vinnubrögðum hvetja nú til lélegra vinnubragða til þess að gera nýju stjórninni erfitt um vik. Pólitíkin lætur ekki að sér hæða.
Um leið og ég óska öllum gleðilegs nýs árs þá um leið hvet ég fólk til þess að fjárfesta sér í pakka á einhvern af þeim fjölmörgu íþróttaviðburðum sem framundan eru á árinu hjá íslensku landsliðunum okkar, sem dæmi EM kvenna í knattspyrnu í Hollandi og EM karla í körfubolta í Finnlandi. Ávísun á ósvikna gleði og fjör sem á sér engan líkan. Það er ótrúlegt hversu langt jákvæðni og gleði geta fleytt manni.