Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð Örvars: Bland í poka
Laugardagur 2. mars 2019 kl. 09:00

Lokaorð Örvars: Bland í poka

Það hefur ansi mikið verið í gangi á síðustu vikum, mínir menn í körfunni Njarðvík töpuðu bikarúrslitaleiknum gegn Stjörnunni en njarðvískir áhorfendur fjölmenntu og geta verið afar stoltir af sínum magnaða stuðningi og rotuðu engan í stúkunni. Félagsskiptaglugganum á Alþingi fer bráðum að loka en helstu skiptin til þessa eru sú að Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason eru búnir að skipta yfir í Miðflokkinn sem kom vissulega engum á óvart en Ásmundur Friðriksson hafnaði tilboði frá Pírötum.

KFC á Íslandi hafa loksins ákveðið að skipta um franskar og þá er aldrei að vita nema maður reki þar nefið inn á nýjan leik, kannski eftir átakið. Þá lauk annari seríu af Ófærð með miklum hvelli. Ragnar sem var sonur afa síns og hálfbróðir mömmu sinnar stal algjörlega senunni. Þess má geta að langafi hans gifti sig alls fimm sinnum í sveitinni en átti þó alltaf sömu tengdaforeldrana. Ekkert verið að flækja hlutina í sveitinni. Ekki nema sextán nýjar fréttir birtust svo um Jón Baldvin í síðustu viku og þá lofuðu forkálfar Procar að fitla aldrei aftur við kílómetrastöðu bílanna sinna en næstum 40 bílar þeirra voru færðir niður um meira en 30 þúsund kílómetra. Fólk vill nefnilega ekki kaupa of mikið keyrða bíla, þá er þetta í lagi strákar.

Það styttist svo óðfluga í þá heilögu stund að við veljum okkur fulltrúa til þess að koma fram fyrir hönd þjóðarinnar í Eurovision en flestir eru sammála um að sjaldan eða aldrei hafi valið verið jafn erfitt. Lögin eru reyndar misskítléleg en það skásta af flestra mati er BDSM-hópurinn Hatari. Væri það ekki dúndur á sviðinu í Ísrael? Eða taka „safe bet“ á þetta og tapa með stæl á þriðjudeginum og velja reynsluna hjá Friðrik Ómari eða Heru? Suðurnesjafólkið vantaði í þessa undankeppni, áskorun mín til Valdimars í fyrra hefur ekki skilað sér – Leoncie, þú kannski hendir þér í þetta á næsta ári?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Já, það eru svo reyndar kjaradeilur í gangi og allt í hnút á þeim bæ. Ótrúlegt en deiluaðilar eru ekki sammála um hvað deilt sé um þrátt fyrir að hafa setið saman á óteljandi fundum hjá ríkissáttasemjara í rúma tvo mánuði. Bjarni Ben og Kata Jak reyndu að beita sér fyrir lausn deilunnar með mögnuðu skattalækkunar útspili „Megaviku“ tilboði en ein Domino’s extra og lítill af brauðstöngum hafði ekkert að segja að þessu sinni. Kannski að þau bæti við máltíð númer sex hjá KFC með nýjum frönskum? Engar vöfflur eru a.m.k. í sjónmáli. Mín tillaga er sú að þessir hópar hætti nú að hittast hjá ríkissáttasemjara og velji sér stað þar sem auðveldara er að opna sig, Klaustur Bar jafnvel?