Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð Örvars: 25 ára afmælisgjöf til bæjarbúa?
Örvar Þór Kristjánsson.
Laugardagur 22. júní 2019 kl. 14:41

Lokaorð Örvars: 25 ára afmælisgjöf til bæjarbúa?

Reykjanesbær varð nú á dögunum 25 ára gamall en fyrir þá sem ekki vita þá sameinuðust Njarðvík, Keflavík og Hafnir formlega þann 11. júní 1994. Í dag er Reykjanesbær fjórða stærsta sveitarfélag landsins með 19.020 íbúa og flestir sammála um að sameiningin hafi heppnast alveg ágætlega. Þegar kosið var um sameininguna í febrúar 1994 var það mikill meirihluti sem kaus með henni, eða rétt um 95% í Keflavík, 98% í Höfnum (þeir sjá eflaust eftir því í dag enda hafa þeir nánast gleymst) en mun meiri óvissa var í Njarðvík. Fór svo að lokum að rúm 60% þar sögðu já við sameiningunni en það var talsverð hræðsla fyrir kosningar að þar yrði sameiningin felld. Í Njarðvík var nefnilega ansi hávær og kröftugur hópur á móti sameiningunni og lét hann mikið til sín taka í baráttunni, mættu meðal annars á kjörstað og reyndu að tala um fyrir fólki með misjöfnum árangri. Það voru miklar tilfinningar í spilinu.

Nafnið á sameiginlega sveitarfélaginu var einnig mikið hitamál en fyrir kosningar var gert samkomulag um að ekkert nafna gömlu sveitarfélaganna yrði notað. Reykjanesbæjarnafnið var lengi að venjast en í dag, eru að manni grunar, flestir búnir að taka nafnið í sátt. Þeir sem eiga rætur að rekja til svæðisins tala þó ávallt um Njarðvík, Keflavík og Hafnir í daglegu tali. 25 ár er ekki langur tími en þetta blessaða sveitarfélag hefur farið í gegnum ansi margt, sannkölluð rússíbanareið. Herinn fór, hrunið kom, Helguvíkurklúðrið, sigruðum í keppninni um skuldsettasta sveitarfélag landsins árið 2014… mínus 41.000.000.000! Svo hófst endurreisnin með blómlegri Ásbrú, gagnaverum, líftæknifyrirtækjum, Keili og fordæmalausum vexti í ferðaþjónustunni þar sem Keflavíkurflugvöllur var í aðalhlutverki. Allt í blóma, atvinnuleysi „núll“ og fasteignir okkar bæjarbúa hækkuðu vel. Reyndar eru fáein óverðurský farin að láta á sér kræla núna enda fer allt í hringi á þessu blessaða landi og menn læra seint af fyrri áföllum. Með falli WOW air þá dundi yfir enn eitt áfallið í Reykjanesbæ en áhrifin eiga eflaust eftir að koma betur í ljós í haust. Við höfum séð það verra reyndar. Vonandi verður höggið mildara en margir óttast en miðað við stefnuleysi ríkisvaldsins í ferðaþjónustunni þá er maður ekki beint bjartsýnn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hins vegar þá stendur Reykjanesbær betur en nokkru sinni fyrr, vissulega hafa nýjar áskoranir fylgt mikilli fólksfjölgun og ærin verkefni eru framundan en við erum á nokkuð grænni grein. Já og erum að fá einhverja milljarða vegna sölu á HS Orku. Bæjarbúar eiga hrós skilið fyrir endurreisnina enda tóku þeir á sig auknar álögur m.a. aukaálag ofan á hámarksútsvar, fasteignaskattar voru hækkaðir verulega og ýmis þjónusta skert. Þessu sýndu íbúar mikinn skilning. Nú þarf sveitarfélagið að koma til móts við íbúa sína og færa þeim viðeigandi 25 ára afmælisgjöf með t.d myndalegri lækkun á álagningarprósentu fasteignagjalda sem eru ansi íþyngjandi fyrir margar fjölskyldur. Treysti á ykkur bæjarstjórn, boltinn er hjá ykkur. Til hamingju með afmælið.

Örvar