Lokaorð Margeirs: Sexhundruð
Sexhundruð eru félagsmennirnir orðnir í Golfklúbbi Suðurnesja. Það er gleðiefni enda er golf að öllum öðrum íþróttum ólöstuðum, besta íþrótt í heimi. Ég var svo heppinn að kynnast þessari henni árið 1986. Fékk bakteríuna um leið. Þótti stórskrítinn að láta fótbolta lönd og leið til að elta lítinn hvítan bolta í Leirunni.
Afi minn heitinn var duglegur að spila með mér og skipti þá engu þótt aldursmunurinn á okkur væri 43 ár. Ég á unglingsárum og hann rétt um sextugt. Frábær leið til að brúa kynslóðabilið. Í Leirunni áttum við margar góðar stundir. Nú er svo í pottinn búið að félagar mínir í fótboltanum eru einn af öðrum að leggja leið sína á golfvöllinn. Rétt rúmlega fimmtugir. Alltof seint náttúrlega. En betra er seint en aldrei.
Ég hvet íbúa Suðurnesja til að feta í fótspor þeirra. Við eigum frábæra golfvelli í Leiru, Sandgerði, Grindavík og Vogum. Átján holu golfhringur er tíu kílómetra göngutúr sem maður myndi aldrei nenna af stað í nema til að elta lítinn hvítan bolta. Góða skemmtun á golfvellinum.