Lokaorð Ingu Birnu: Sautján ára
Þegar ég var sautján ára þá hætti ég að æfa dans. Foreldrar mínir sögðu ekkert. Ég ákvað bara að nú væri komið gott, ég væri búin að missa af svo miklu í félagslífinu, ég hefði fórnað svo miklu fyrir dansinn að nú þyrfti ég tíma til þess að „lifa lífinu“. Ó guð hvað ég hafði rangt fyrir mér. Ekki það að ég hafi ekki átt frábær unglingsár, alls ekki. En bara ef ég hefði vitað allt sem ég veit núna þá hefði ég aldrei hætt.
Dansáhugi minn skilaði sér til dætra minna. Þegar eldri dóttir mín varð sautján ára þá ákvað hún að hætta að æfa ballet sem hún hafði æft af kappi frá sex ára aldri og var mjög efnileg. Ég upplifði ótrúlega sorg. Reyndi að tala hana af þessu en hún var harðákveðin. Hún hafði byrjað að stunda dans meðfram ballettiðkun sinni og heillaðist meira af „street“-dansi en ballett. En hver var ég til þess að gagnrýna hana? Ég hafði líka hætt að stunda áhugamál mitt sautján ára. Sérstaklega í ljósi þess að hún fylgdi ástríðu sinni með gríðarlega góðan grunn úr ballett sem hefur nýst henni vel. En sorgin var engu að síður til staðar hjá mömmunni yfir breytingunum.
Fimm árum seinna þá hefur það sýnt sig að þetta var góð ákvörðun þrátt fyrir mótbárur mömmunnar.
Í dag er yngri dóttir mín einmitt sautján ára. Hún er góður dansari en ennþá betri í golfi. Komin í unglingalandslið, stendur sig mjög vel og æfir af kappi. Hugurinn hefur stefnt langt en á þessum aldri er svo margt annað spennandi og alltof fáir tímar í sólarhringnum til að sinna öllum ástríðunum. Ég veit ég yrði ómöguleg ef hún myndi missa áhugann en ég veit að það er ekkert að óttast. Ég veit það núna. Ég veit líka að við foreldrar upplifum öll þennan ótta.
Það er ekki tilviljun að unglingar hætti að stunda áhugamál sín á þessum aldri og lítið annað sem við foreldrar getum gert annað en vera styðjandi á hverjum tíma, því áhugamál getur fljótt snúist í andhverfu sína ef barn upplifir of mikinn þrýsting frá foreldrum sínum. Það er alltaf jákvætt þegar börnunum okkar gengur vel í því sem þau taka sér fyrir hendur. Ef þau hafa sýnt metnað í þeim verkefnum sem þau taka að sér eða tómstundum sem þau stunda þá munu þau sennilega ekki missa þann metnað þrátt fyrir að áhugi á einstöku sporti dvíni. Foreldrar! Ég skil og veit hvernig tilfinningin er að eiga barn sem breytir um stefnu eða missir áhuga á því sem við foreldrar höfum mikinn áhuga á en við ykkur segi ég, ekki óttast. Þetta mun allt skila sér.